151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

aðgengi einstaklinga sem ferðast til Íslands að þungunarrofi.

239. mál
[12:39]
Horfa

Flm. (Rósa Björk Brynjólfsdóttir) (U) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinna andsvar. Eins og ég kom inn á áðan er erfitt um vik að áætla þann fjölda kvenna og stúlkna sem hingað kæmu til að fá þessa heilbrigðisþjónustu og því um leið erfitt um vik að áætla kostnað. En þegar talað er um kostnað ríkissjóðs við þessa þingsályktunartillögu vil ég benda á það að konur af pólskum uppruna, konur frá Póllandi sem hingað hafa komið til að vinna á Íslandi, hafa greitt í ríkissjóð skatta og gjöld og hafa verið ómissandi þáttur í uppgangi ferðaþjónustunnar undanfarin ár, ómissandi þáttur í því að halda hér uppi ákveðnum atvinnugreinum. Þær hafa verið ómissandi þáttur vinnuafls á Íslandi og greitt framlag sitt í ríkissjóð Íslands. Á þetta vil ég benda þeim þingmönnum sem eru hræddir eða óttaslegnir yfir kostnaðinum sem falla mun á ríkissjóð vegna tillögunnar.