151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

aðgengi einstaklinga sem ferðast til Íslands að þungunarrofi.

239. mál
[12:52]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar í seinna andsvari að spyrja aðeins út í söguna. Þegar við afgreiddum lög um þungunarrof fyrir tveimur árum voru raddir hér í þingsal sem vildu stíga skref aftur á bak miðað við þau lög sem við vorum að kveðja, vildu fara aftur fyrir 1974 og þrengja lögin frá því sem þá náðist fram. Þá er kannski nærtækast að nefna þingmennina sem lögðu til að stytta tímarammann sem konur gætu nýtt sér þessa heilbrigðisþjónustu úr 22 vikum, sem allir læknar og allir vísindamenn sögðu að væri hinn eðlilegi viðmiðunarpunktur, niður í 18 eða 20 vikur, eftir því hver hélt á. Um þetta voru greidd atkvæði hér í salnum. Hæstv. fjármálaráðherra studdi t.d. að þrengja þetta niður í 20 vikur, sem hefði þýtt að Ísland hefði horfið aftur (Forseti hringir.) til þess tíma þegar konur þurftu að leita til Bretlands til að sækja sér þessa þjónustu vegna þess að hún var bönnuð á Íslandi. (Forseti hringir.) Skuldar Ísland ekki heiminum, sem hjálpaði konum fyrir 1974, að að veita þá þjónustu konum (Forseti hringir.) sem ekki geta sótt sér hana í dag?

(Forseti (BN): Forseti vill biðja hv. þingmenn að virða tímamörk. )