151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

aðgengi einstaklinga sem ferðast til Íslands að þungunarrofi.

239. mál
[13:52]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ég man ekki nákvæmlega hvort fylgt hafi einhver skilyrði fyrir því neyðarláni sem Pólverjar veittu Íslendingum á sínum tíma og var þakkarvert og gott. Þeir eiga allt gott skilið fyrir það. Hvort við skuldum þeim einhverja sérstaka gjörð í þessu máli — ég lít ekkert endilega á það þannig. Ég held að við þurfum fyrst og fremst að borga skuldir okkar.

Í öðru lagi þurfum við að sýna þessari þjóð þakklæti sem við höfum átt í svo góðum samskiptum við. Hingað hafa þúsundir Pólverja flutt, stundað hér atvinnu, staðið undir uppvexti atvinnulífsins þegar mest á þurfti á að halda. Það er mjög þakkarvert. Það munum við eiga mjög erfitt með að sýna fullt þakklæti fyrir. Ég geri ekki ráð fyrir því að við þurfum að flytja sérstaka þingsályktunartillögu um fóstureyðingar á Alþingi sem þakklætisvott fyrir neyðarlán Pólverja. Ég held að það sé ýmislegt annað sem við getum gert fyrir þessa þjóð annað en að setja mikla kröfu á heilbrigðiskerfið. Mér finnst framsögumaður málsins gera mjög lítið úr því og telja að þetta sé bara ekkert mál. Þá ætla ég enn og aftur ekki að ræða sjálfa fóstureyðinguna heldur er ég bara að reyna að setja mig inn í það þegar flutningsmenn tala hér um að konur frá mörgum þjóðum séu velkomnar hingað í þessar aðgerðir, virðulegur forseti. Það hlýtur að fylgja því verulegt álag, miklu meira álag en íslenska heilbrigðiskerfið er gert til að ráða við. Það er fyrst og fremst það. Þegar þingmenn spurðu um þetta í morgun var þeim kaleik vísað til heilbrigðisráðherra.