151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

aðgengi einstaklinga sem ferðast til Íslands að þungunarrofi.

239. mál
[14:13]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um aðgengi einstaklinga sem ferðast til Íslands að þungunarrofi. Það hefur verið farið um víðan völl í umræðunni um þessi málefni og komið inn á afstöðu þingmanna til fóstureyðinga og í því sambandi hefur verið talað um yfirgang karla og farið alla leið í göngu nýnasista í Póllandi. (RBB: Nei, Guðmundur, ég var ekki að tala um þig …) Nei, ekki um mig, ég er ekki að segja það, heldur var þetta umræðan. Ég segi fyrir mitt leyti að það er óskiljanlegt fyrirbrigði að nýnasistar í Póllandi séu að fara í göngu og ég myndi aldrei styðja það og ég skil ekki þá fóstureyðingarlöggjöf sem var sett á í Póllandi. Jú, hún er ströng og allt of ströng og það endurspeglar kannski þeirra trú. Það er oft framið ofbeldi í nafni trúarinnar, því verr og miður, vegna þess að okkur virðist oft ganga illa að koma í veg fyrir ofbeldi sem þar fer fram.

En getum við leyft okkur að heimfæra Pólland yfir á Ísland? Það hefur komið fram og var bent á að þeir sem voru á móti nýrri löggjöf um fóstureyðingar á Íslandi séu á móti þessu. Það er alveg rétt. Ég var á móti nýju fóstureyðingarlöggjöfinni á Íslandi. Eins og komið hefur fram: Er vanfær kona heilbrigðisvandamál? Ég segi nei. Það er gleðiefni fyrir flesta, sem betur fer. Vita konur ekki hvernig börnin verða til? Jú, flestallir vita það ósköp vel. Er einhver að tala um að hefta frelsi kvenna eða að ráða yfir líkama kvenna? Nei, mér hefur aldrei komið það í hug. Þótt ég hafi skoðanir á hlutunum þá þýðir það ekki að það sé samasemmerki þar á milli. Við erum að tala um annan einstakling, sem er fóstrið. Ég horfi á það sem einstakling. Hvað kemur upp ef maður gúglar bara „fóstur“? Þá segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Fóstur er afkvæmi sem er enn í móðurkviði. Það þróast út frá fósturvísi (sem er frumstig þroskans). Í manninum byrjar fósturstigið níu vikum eftir frjóvgun (sama tímabil kallast 11. vika meðgöngu) og er fram að fæðingu. Þar sem fóstur þroskast smátt og smátt eru ekki greinileg mörk sem aðgreina fósturvísi frá fóstri, en í fóstri eru þó öll líffærin orðin til (þó þau séu ekki orðin fullþroska, og sum ekki enn komin á réttan stað).“

Á vef heilsugæslunnar segir:

„Vöxtur er mikill og hraður. Öll líffærin myndast á fyrstu tólf vikunum en eru smá og óþroskuð. Hjarta fóstursins byrjar að slá á fjórðu viku eftir getnað. Hjartsláttur fóstursins er hraður, næstum tvöfalt hraðari en hjartsláttur móðurinnar. Húð fóstursins er aðlöguð því að vera í vatni. Hún er varin með vaxkenndu efni sem kallast fósturfita. Fósturfitan ver húð fóstursins gegn núningi. Fitan þekur húð barnsins alla meðgönguna og veldur því að barnið er sleipt og kámugt við fæðingu. Fyrstu hárin myndast um leið og húðin verður fullþroska við u.þ.b. 12 vikur. Fóstrið er á sífelldri hreyfingu og sefur aðeins í smá dúrum en vegna smæðar þess finnur móðirin ekki fyrir hreyfingunum ennþá. Undir lok þessa tímabils er barnið farið að sjúga fingur og kyngja. Kyn barnsins, hár og augnlitur ákvarðast snemma.

Í lok þessa tímabils er fóstrið orðið fullskapað, komin á það mannsmynd og öll líffærin eru til staðar þó þau séu enn óþroskuð. “

Þess vegna segi ég það að þau lög sem giltu, áður en við leyfðum að eyða fóstri á 22. viku meðgöngu, ég studdi þau. Ég studdi ekki 22. viku. Ég tel það ekki vera vegna þess að ég sé að ráðast að rétti kvenna. Ég styð það heils hugar að ef kona verður fyrir nauðgun þá eigi hún rétt á fóstureyðingu. Ég tel líka að ef eitthvað er að barni þá eigi rétturinn að vera til staðar. En ég tel að eftir 12 vikur sé um neyðarstig að ræða og það eigi ekki að vera eðlilegt að leyfa fóstureyðingu að 22. viku. Með því að leyfa þessari þingsályktunartillögu að fara í gegn er verið að segja að það sé í lagi að eyða fóstri pólskra kvenna á Íslandi allt að 22. viku.

Það hefur komið hérna fram að fóstureyðing, eins og hv. þm. Andrés Ingi Jónsson sagði, væri lítið mál. Hún færi ekkert fram á sjúkrahúsi, þetta væri lyfjagjöf og svo heim. Það gildir auðvitað um Ísland. En það myndi ekki gilda fyrir þær konur sem kæmu frá Póllandi eða Möltu. Það myndi ekki duga, bara lyfjagjöf og svo heim, það yrði að klára ferlið hér. Því miður. Ég segi fyrir mitt leyti að í þessum tilfellum yrði aldrei um heilbrigðismál að ræða, þetta er bara ákvörðun sem yrði tekin af viðkomandi konum. Ég hef þar af leiðandi áhyggjur af því að það er ekkert plan B, ekkert plan C um það hvernig þetta á að fara fram. Hversu margar koma er ekki vitað.

Því miður er líka inni í þessu dæmi sú furðulega staðreynd að á Íslandi voru framkvæmdar 1.044 fóstureyðingar árið 2017. Við erum að tala um að nú þegar eru fóstureyðingar nærri því fjórar á dag. Það kom fram hér að það er sennilega nægilegt álag á íslenska kerfið eins og það er í dag, og ég tala nú ekki um í miðju Covid. Ef þetta tvöfaldast þá erum við að tala um átta og ef það þrefaldast þá erum við að tala um 12 á dag. Ég efast um að aðstaða sé til þess hér. Ég efast um að hægt verði að gera þetta og ég sé ekki hvernig í ósköpunum þetta á að fara fram.

Ég segi fyrir mitt leyti að það hefði verið miklu einfaldara að lýsa hreinlega yfir stuðningi við pólskar konur til að reyna að fá lögum breytt í þeirra landi. Ég veit að það kom fram, sem mér fannst alveg ótrúlegt, í þeirri umræðu sem fór fram um fóstureyðingar á sínum tíma þegar var farið í 22 vikur, að það yrðu engin tímamörk á fóstureyðingum. Það skelfir mig alveg hrikalega. Það er bara mín skoðun. Ég get ekki séð það fyrir mér. Hér kom fram að eftir 12 vikur erum við ekki að tala um, að ég held, fóstur, heldur erum við að tala um barn í mannsmynd. Þar af leiðandi ættum við að einbeita okkur að því að gera allt sem við getum í fyrsta lagi til að konur verði ekki ófrískar að óþörfu og í öðru lagi að sjá til þess að konur þurfi ekki að fara í fóstureyðingu. Það hlýtur að vera eitt það skelfilegasta af öllu skelfilegu að þurfa að taka þá ákvörðun að fara í fóstureyðingu. Og að við skulum hafa heyrt tölur um 150.000–200.000 — einhvern veginn finnst mér það ekki virka á þeirri öld sem við erum komin á, með þá þekkingu sem er til staðar í samfélaginu, að við séum enn á þeim stað. Ég vona heitt og innilega að við finnum einhverja lausn á því máli.