151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

aðgengi einstaklinga sem ferðast til Íslands að þungunarrofi.

239. mál
[14:32]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Ég kem hér upp til að styðja þessa mikilvægu tillögu hv. þm. Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur. Ég geri það í nafni kvennasamstöðu. Ég geri það í nafni frelsis okkar allra til að lifa frjálsu lífi á okkar eigin forsendum. Ég geri það í nafni mannhelgi sem við eigum öll rétt á að njóta. Ég geri það vegna þess að staðan í Póllandi sýnir okkur hversu hverful réttindi kvenna eru um allan heim, hversu auðveldlega er hægt að hrifsa þau af okkur aftur, sér í lagi ef þau okkar sem láta sig þessi mál varða, sem hafa sterka stöðu, sem eru á góðum stað, sem hafa ríkisstjórn sem leidd er af hæstv. forsætisráðherra, Katrínu Jakobsdóttur, sem hefur femínisma sem eina af sínum grunnstoðum. Ríkið sem slíkt ætti alltaf að standa með rétti kvenna til yfirráða yfir eigin líkama. Á meðan við höfum þetta frelsi og höfum þessa getu til að standa með kynsystrum okkar í Póllandi og Möltu, og vissulega víðs vegar annars staðar í heiminum, þá eigum við að gera það sem við getum til að leggja þeim lið.

Við skulum ekki gleyma því að það er auðvelt að missa þessi réttindi frá okkur aftur ef ekkert er að gert. Ef alþjóðasamfélagið sýnir konum í Póllandi ekki samstöðu getur næsta vígið fallið og næsta og næsta. Eins og fram kom í máli hv. þm. Andrésar Inga Jónssonar, er vel fjármögnuð og skipulögð aðför í gangi um alla Evrópu, um allan heim, gegn frjósemisréttindum kvenna.

Þetta er ekki heiðarleg stjórnmálabarátta sem verið er að stunda. Þetta fjármagn kemur ekki til með að tryggja heilsu og velferð kvenna þótt það sé stundum sagt, eða bjarga lífi. Ætlunin er að grafa undan grunnfrelsi, grunnákvörðunarrétti kvenna í lýðræðisríkjum vegna þess að þessi öfl vilja fara aftur á þann stað að konan sé á sínum stað innan veggja heimilisins að ala börn, gera fátt annað, og karlar fái aftur þau yfirráð yfir samfélaginu sem þeir töldu sig alltaf eiga tilkall til. Þetta er tilgangurinn að baki þessari aðför.

Mér þykir líka leitt að heyra hversu óheiðarlegur málflutningurinn gagnvart þessari tillögu hefur verið. Það er ekki svo að hv. þingmenn Ásmundur Friðriksson eða Birgir Þórarinsson hafi einhverjar gríðarlegar áhyggjur af kostnaði hér. Þeir eru einfaldlega á móti þungunarrofi og eru þar af leiðandi á móti þessari tillögu. Það er óheiðarlegt að tala um þetta einhvern veginn öðruvísi. Við skulum bara orða hlutina eins og þeir eru, það er þá bara gert á þessum forsendum. Málflutningur þessara tveggja þingmanna og annarra þingmanna í þessum sal, þegar við ræddum um heildarendurskoðun á löggjöf um þungunarrof, olli vissulega áhyggjum hjá þeirri sem hér stendur. Ég hélt í raun og sann að frjósemisfrelsi kvenna væri betur virt á Íslandi en umræður í þessum sal gáfu til kynna. Ég trúði því og það kom mér í opna skjöldu hversu forpokuð, fordómafull og kreddufull ummæli voru látin falla í þessum ræðusal. Það vakti ugg að ráðherrar í þessari ríkisstjórn skyldu vilja ganga til baka þegar kæmi að réttindum kvenna til yfirráða yfir eigin líkama, meira að segja ráðherrar í flokki sem kenna sig við einstaklingsfrelsi. Það skiptir víst máli hvers kyns viðkomandi einstaklingur, sem vill nýta sér frelsi sitt, er í sumum kreðsum.

Ef ekki nú þá hvenær? Ef ekki við þá hverjir? Þetta er spurning um hvað við getum gert til að sýna hvað við stöndum fyrir. Við stöndum fyrir jöfnum réttindum kvenna og karla, við stöndum fyrir jafnrétti, við stöndum fyrir mannhelgi kvenna, rétti þeirra til að ráða yfir eigin líkama og við höfnum hvers kyns forræðishyggju eða tali um að við þurfum bara að gjöra svo vel að láta það sem öðrum hentar koma fyrir líkama okkar vegna þess að það passar inn í einhverjar trúarskoðanir eða hugmyndir karla um yfirráð yfir líkama kvenna. Það kemur ekki til greina. Og þess vegna er þessi tillaga mikilvæg, vegna þess að hún sýnir afstöðu. Hún sýnir afstöðu með rétti pólskra kvenna til að ráða yfir eigin líkama, rétti kvenna í bandalagsríki okkar til að ráða yfir sínum eigin líkama. Það sýnir að við stöndum með þeim og séum tilbúin að leggja þeim lið. Þetta er það sem þessi tillaga þýðir, ekkert annað.

Allt tal og fabúleringar um kostnað er yfirskin. Það er líka alveg ótrúlegt hvað þeir hv. þingmenn sem töluðu um kostnaðinn sem þetta myndi fela í sér, höfðu lítið um kostnaðinn að segja. Þeir voru fljótir að bakka og höfðu raunar ekki hugmynd um um hvað þeir voru að tala, enda snýst þetta ekki um kostnað fyrir þeim. Þetta snýst um hugmyndafræði, að hafa stjórn á líkama kvenna. Það er ástæðan fyrir því að þessir hv. þingmenn eru á móti þessari tillögu, þeir eru á móti þungunarrofi. Það væri þá eðlilegra að þeir viðurkenndu það, gengjust við því og það væri hægt að tala við þá á þeim forsendum en ekki með einhverju bulli, einhverri afsökun, einhverjum óheiðarleika.

Nákvæmlega þannig er þessi aðför að frjósemisfrelsi kvenna líka stunduð víðs vegar um Evrópu. Hún er sett í búning umhyggju, sett í búning trúarjátninga, sett í allt annan búning en nákvæmlega það sem liggur fyrir, yfirráð karla yfir líkama kvenna. Það er andstaðan, um það snýst hún. Það skal enginn velkjast í vafa um það.