151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

aðgengi einstaklinga sem ferðast til Íslands að þungunarrofi.

239. mál
[14:45]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér áhugaverða þingsályktunartillögu. Ég ætla að byrja á að segja að mér finnst leiðinlegt og sorglegt þegar við förum í þann farveg þegar við ræðum svona mikilvæg mál, líka siðferðileg mál, að fara í ákveðna pólaríseringu. Það heyrist t.d. augljóslega á þeim sem eru á móti þungunarrofi að þeir nota gjarnan orðið fóstureyðing. Við tókum það út úr lögunum á síðasta ári og settum inn þetta orð, þungunarrof, í stað orðsins fóstureyðing. Það er þá alveg skýrt hvar hugur þessara ágætu þingmanna liggur. En það er líka ansi langt gengið á hinn endann, að stilla fólki svolítið upp við vegg út af skoðunum sínum. Umræðan um þetta hefur ekki bara verið hér undir þessum lið heldur líka í fyrirspurnum til ráðherra í dag og í fundarstjórn síðustu daga.

Ég ætla að segja það að eins sorgleg og mér finnst sú þróun vera sem á sér nú stað í Póllandi þar sem er verið að ganga á réttindi kvenna og mannréttindi — sú þróun á sér reyndar stað, því miður, víða í heiminum, m.a. í Bandaríkjunum — þá er líka ofboðslega sorgleg og leiðinleg sú þróun sem er einhvers konar pólarísering í allri umræðu. Það þurfa allir að vera rosalega mikið með eða rosalega mikið á móti. Okkur skortir stundum að mætast í miðju og tala af yfirvegun um hlutina. Að því sögðu ætla ég að segja að mér finnst það ofboðslega sorglegt að horfa upp á það ástand sem ríkir í Póllandi og ég fordæmi þær aðgerðir sem þar eiga sér stað. Mér finnst verið að vega verulega að réttindum kvenna og mannréttindum almennt. Við eigum að láta í okkur heyra því að það skiptir máli að láta í sér heyra þegar vegið að mannréttindum.

Að því sögðu þá velti ég því hreinlega fyrir mér hvort erlendir ríkisborgarar fái ekki þjónustu í dag eins og þungunarrof eða aðra heilbrigðisþjónustu. Ég geri ráð fyrir að farið verði yfir það í hv. velferðarnefnd sem fær þetta mál til umsagnar. En það er ekkert í lögum um þungunarrof sem segir að það sé bara fyrir íslenska ríkisborgara. Það stendur aftur á móti að heilbrigðisþjónusta vegna þungunarrofs skuli vera gjaldfrjáls fyrir konur sem eru sjúkratryggðar. Þannig að mér leikur forvitni á að vita að ef pólsk kona labbar inn á Landspítalann í dag og óskar eftir þungunarrofi hvort spítalinn hafi heimild til að neita henni um slíka þjónustu. Að því sögðu finnst mér ekkert óeðlilegt við að veita þá þjónustu til pólskra kvenna eða til þeirra sem ekki hafa getað fengið þjónustu í sínu heimalandi eða leita hingað af einhverjum öðrum ástæðum eftir heilbrigðisþjónustu.

Ég hef flutt þingsályktunartillögu um dánaraðstoð, sem er líka mjög umdeilt mál. Þar eru siðferðilegar spurningar. Það eru ákveðin lönd sem búið hafa til lagaramma utan um dánaraðstoð, önnur ekki. Þetta gerir það auðvitað að verkum að fólk sem vill slíka þjónustu leitar þangað sem það fær hana. Það sjáum við t.d. í Sviss þar sem fjöldi útlendinga kemur á ári hverju til að leita eftir þessari þjónustu. Og hvað sem okkur kann að finnast um þungunarrof, dánaraðstoð eða aðra þjónustu sem hægt er að setja ákveðnar siðferðilegar spurningar við, held ég að það sé miklu eðlilegra að við hér á landi höfum bara skýran ramma í kringum svoleiðis þjónustu. Dánaraðstoð hef ég nefnt, mig langar líka að nefna staðgöngumæðrun. Ég held að við ættum að dusta rykið af frumvarpi um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni og vera með ramma utan um það því að við vitum að fólk leitar sér slíkrar þjónustu erlendis.

Hér er talað um að þær konur sem myndu leita eftir slíkri þjónustu þyrftu að geta framvísað evrópska sjúkratryggingakortinu. Þá langar mig hreinlega að velta upp þeim tækifærum sem geta falist í heilbrigðisþjónustu til handa erlendum ríkisborgurum, hvort sem það á við þungunarrof, liðskipti eða bara eitthvað allt annað. Við á Íslandi eigum ofboðslega vel menntaðar heilbrigðisstéttir og gott heilbrigðiskerfi. Ég sé ekkert athugavert við að við flytjum út slíka þekkingu með því að bjóða aðilum erlendis að koma hingað og sækja slíka þjónustu. Og óháð því hvort um útlendinga eða Íslendinga væri að ræða þá hef ég lengi talað fyrir því að við værum með einhvers konar kvenlækningamiðstöð, burt séð frá því hversu frábær heilsugæslan getur verið og veitt ýmsa þjónustu. Við erum í algjörum heimsklassa þegar kemur t.d. að þjónustu við þungaðar konur, ljósmæður okkar og hjúkrunarfræðingar okkar og öll sú þjónusta sem konur fá á meðgöngu, við fæðingu og sængurlegu, í ungbarnaeftirliti, er í algjörum heimsklassa. En þegar ég var ófrísk langaði mig ekki fara á heilsugæsluna og fá þá þjónustu, ég vildi fara til kvensjúkdómalæknis míns eða ljósmóður. Ég myndi gjarnan vilja sjá hér sjálfstætt starfandi kvenlækningamiðstöð þar sem konur sem það kjósa geta valið sér sína ljósmóður eða lækni og hjúkrunarfræðing og sína þjónustu.

Ég held að það séu aukin tækifæri í þessu þannig að ég fagna þessari þingsályktunartillögu. Ég vona að hún geti líka orðið þess valdandi að við getum rætt heilbrigðisþjónustu í víðara samhengi, horft til sjálfstætt starfandi einstaklinga þar að lútandi og jafnframt til þess hvort við getum veitt þessa þjónustu til erlendra ríkisborgara sem eru annaðhvort tryggðir samkvæmt evrópska sjúkratryggingakortinu eða eru með annars konar tryggingar sem geta greitt fyrir slíka þjónustu.