151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

aðgengi einstaklinga sem ferðast til Íslands að þungunarrofi.

239. mál
[14:52]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir innskot hennar í þessa umræðu. En ég hjó eftir þessu undarlega fyrirbrigði að búið sé að banna orðið fóstureyðing, að það sé búið að taka það út. Ég segi fyrir mitt leyti að ég get ekki séð hvernig í ósköpunum á að vera hægt að banna mér eða öðrum að nota orðið fóstureyðing og skylda okkur til að nota orðið þungunarrof. Þegar maður gúglar orðið fóstur kemur upp orðið afkvæmi. Það kemur ekki upp þungunarrof. Orðið þungun kemur jú fyrir en þetta er fóstur og þungunin rofnar ef fóstrið fær ekki að lifa lengur. Mér finnst þetta svolítið furðulegt og ég vil fá skýringu á því.

Mig langar líka að vita hvort hv. þingmaður telur þessa þingsályktunartillögu algjörlega tilgangslausa. Hún sagði hreinlega að nú þegar gætu konur í Póllandi, sem hefðu evrópska sjúkrakortið, komið hingað í þessa aðgerð, að það sé ekkert sem stoppi þær af. Er þetta rétt? Telur hv. þingmaður virkilega að það sé alveg á hreinu að þær geti bara komið hingað og þar af leiðandi sé þessi þingsályktunartillaga algjörlega tilgangslaus?