151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

aðgengi einstaklinga sem ferðast til Íslands að þungunarrofi.

239. mál
[15:25]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Við upphaf þessarar umræðu ætlaði ég ekki að taka til máls og enn síður eftir að 1. flutningsmaður málsins talaði, enda fór hún yfir allt sem ég tel skipta máli efnislega varðandi tillöguna. Ég er meðflutningsmaður á tillögunni og styð hana því. Umræðurnar í dag hafa ekki verið til þess fallnar að mér snúist hugur um það. Það er hins vegar eins í þessari umræðu og þeirri sem átti sér stað um þungunarrof nýlega, þegar við samþykktum ný og góð lög, að karlar koma hingað upp í pontu og tala um hluti sem þeir hafa bersýnilega ekkert vit á, og geta ekki haft vit á líffræðinnar vegna og draga þar af leiðandi rangar ályktanir, sem er eðlilegt að gera ef maður hefur ekki réttar upplýsingar, þegar maður fyllir of mikið í eyðurnar.

Ég hef tekið eftir því að það er eins og sumir karlar sem hlýða á þessa umræðu heyri ekki alveg það sem konurnar segja. Mig langar að gera tilraun sem karl til að tala til þessara karla. Ég vil beina þessari ræðu til þeirra einvörðungu. Þá bið ég helstu femínistavini mína um að halda kannski fyrir eyrun, vegna þess að þetta verður kannski svolítið karllæg ræða. Markmiðið er að reyna að ná til kynbræðra minna sem virðast ekki alveg ná punktinum á bak við það sem m.a. þetta mál snýst um: Frelsi. Frelsi fólks til að stjórna eigin líkama.

Stríð eru afskaplega karllægt fyrirbæri, að mínu mati, testósteróneitruð út í gegn, yfirleitt frá A til Ö. En ef maður spyr karlmann, sem er kannski á móti þessu máli, er í íhaldssamari kantinum, hvort það hafi verið rétt að fórna einhverju til að verja frelsið í seinni heimsstyrjöld, þá eru allar líkur á því að sá karl segi: Já, það þurfti að fórna mannslífum, karlmannslífum og kvenmannslífum, alls konar lífum, til þess að verja frelsið. Og gerum við það vegna þess að okkur finnst gott að fórna? Nei, auðvitað ekki. En við heiðrum minningu þeirra sem fórnuðu sér til að verja frelsi okkar.

Vel á minnst. Fyrir Alþingi liggur þingsályktunartillaga um að heiðra minningu þeirra Íslendinga sem fórust í seinni heimsstyrjöldinni. Ég er ekki sjálfur meðflutningsmaður að þeirri tillögu en ég kem til með að styðja hana ef hún kemst til atkvæðagreiðslu. Þar segir, með leyfi forseta:

„Við Íslendingar og bandamenn allir stöndum í þakkarskuld við þá sem lögðu líf sitt að veði í þessum siglingum fullkomlega meðvitaðir um áhættuna. Fórnir þeirra sem fórust voru miklar og er löngu tímabært að heiðra minningu þeirra líkt og lagt er til í þingsályktunartillögu þessari.“

Þetta er ekki flókinn málstaður, að færa fórnir fyrir frelsið. Hann skilst alveg á meðal þeirra sömu karla sem koma hér í pontu og mótmæla þessu máli eða rétti kvenna til að stjórna eigin líkama almennt.

Ástæðan fyrir því að ég bendi á þetta er sú að við að hlýða á ræður sumra hv. þingmanna, reyndar sér í lagi þeirra sem ekki eru í salnum akkúrat núna — ég geri engar athugasemdir við það, það er margt að gera í þingmennsku, eins og við þekkjum — þá skynja ég það að þessir hv. þingmenn átta sig ekki á þessum punkti. Að þetta snýst um frelsi kvenna. En þeir koma hingað upp og hafa afskaplegar áhyggjur af því að það að standa með frelsi kvenna í Póllandi og á Möltu og annars staðar gæti kostað fórnir, að við gætum þurft að borga eitthvað fyrir það. Þeir ættu að vita að stundum kostar fórnir að verja frelsið. Akkúrat núna í þessum töluðu orðum er ráðist á frelsið í sinni víðtækustu mynd, m.a. í Póllandi, ekki bara gegn konum, ekki bara til að stjórna konum, heldur til að stjórna öllu samfélaginu, til þess að berjast gegn hugmyndinni sjálfri um frjálslynd lýðræðisríki. Í því felst vanvirðing fyrir réttindum minnihlutahópa og andúð á minnihlutahópum, andstyggð á sjálfsákvörðunarrétti almennt, sér í lagi kvenna og minnihlutahópa. Og það er okkar hlutverk, þar sem við höfum fengið að njóta frelsisins sem annað fólk fórnaði lífi sínu til að vernda, að verja frelsið núna. Og ef það kostar einhverjar fórnir fyrir ríkissjóð, kæru karlmenn, þá verður bara að hafa það.

Ég vona að ég hafi ekki gengið fram af öllum vinum mínum sem eru kannski ekki hrifnir af svona stríðskarlahjali en stundum finnst mér bara við karlmenn þurfa að standa upp og tala hver við annan þegar það er greinilegt að sumir karlar hlusta ekki á konurnar og skilja ekki málstaðinn jafnvel þótt þeir myndu sjálfir berjast fyrir honum ef þeir áttuðu sig á því hvað þeir væru yfir höfuð að tala um.

Réttur kvenna til að stjórna sínum eigin líkama er mannréttindi. Það er bara þannig. Ég myndi leggja miklu meiri áhættu á ríkissjóð og sjálfan mig til að verja þetta frelsi en felst í þessari tillögu. Mér finnst það skylda mín, ekki bara sem karlmanns heldur sem manneskju sem aðhyllist frjálslynd lýðræðisgildi yfir höfuð.