151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

aðgengi einstaklinga sem ferðast til Íslands að þungunarrofi.

239. mál
[15:34]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þingmaður finni vart róttækari stuðningsmann tjáningarfrelsis en þann sem hér stendur, alla vega ekki á þessu þingi og á kjörtímabilinu. Ef einhver bannar hv. þingmanni að nota orðið fóstureyðing skal ég stökkva fyrstur upp á dekk til að verja þann sjálfsagða rétt hv. þingmanns. Ef einhver gerir aftur á móti athugasemd við eða jafnvel reiðist yfir því að hv. þingmaður noti þetta orð þá get ég lítið hjálpað honum vegna þess að sú reiði og þær athugasemdir eru hluti af hinu sama tjáningarfrelsi.

Hvað varðar spurningu hv. þingmanns út í þungunarrofið sjálft þá legg ég til að hv. þingmaður hlýði á ræður þeirra kvenna sem talað hafa um það af þekkingu og innsýn og reynslu. Ég hef hana ekki og get ekki svarað hv. þingmanni. Ég treysti fólki sjálfu til að taka ákvarðanir og taka þá með í reikninginn punkta eins og frá hv. þingmanni sem eru, með fullri virðingu, ekki nýir. Þeir eru gamlir og þeir hafa verið nefndir margsinnis. Þær konur sem hafa ákveðið að fara í þungunarrof eða tala hér fyrir lagabálknum sem við höfum, hafa alla þá getu sem nokkur manneskja hefur til að taka þessi rök með í reikninginn. Þannig að ég vísa til hv. kvenna til að svara hv. þingmanni um það.

Hv. þingmaður nefndi hér að umræðan fer út í stríð. Já, vissulega. En það er líka vegna þess að það er ekkert minna en beinlínis nasismi og, virðulegi forseti, ég er ekki að nota orðið sem fúkyrði, ég er að tala um fólk sem kallar sjálft sig nasista, það gengur um götur með fána, brennandi elda í nafni nasisma sem er í uppgangi núna, m.a. í Póllandi. Það er það sem er í húfi. Það að fara að tala um seinni heimsstyrjöldina og lexíurnar af henni er bara fullkomlega við hæfi. Við stöndum frammi fyrir uppgangi nasismans. Og meðan ég man: Hér var talað um Trump um daginn. Ég þyki kannski ægilega ósæmilegur að kalla hann nasista. Hann kallar sjálfan sig ekki nasista, en veistu hverjir kalla hann nasista, virðulegur forseti? Nasistar.