151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

aðgengi einstaklinga sem ferðast til Íslands að þungunarrofi.

239. mál
[15:49]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Svo ég leiðrétti ákveðinn grundvallarmisskilning hv. þingmanns í svari hans áðan þá var ég ekki að halda því fram að allar konur í heiminum öllum væru mér sammála um þessi skilaboð. Ég er hins vegar að segja að sú réttarskerðing sem átt hefur sér stað í Póllandi er vitaskuld skerðing á réttindum allra kvenna þar í landi. Ég upplifi sumt af því sem heyrst hefur í ræðum hér í dag eins og menn séu a.m.k. „svag“ fyrir því að fara svipaðar leiðir á Íslandi og skerða rétt allra kvenna. Vitaskuld er það þannig að mjög margar konur, og eflaust flestar konur, nýta sér ekki þennan rétt. En við erum að tala um að þær eigi að hafa þennan rétt. Og varðandi svar um að þingmaður megi hafa sínar skoðanir, það má hann að sjálfsögðu. Hann má hafa allar sínar skoðanir á þessu. Ég hef bara áhyggjur af því hvaða skoðanir það eru. Ég myndi í því sambandi vilja segja að þingmaðurinn á rétt á sínum skoðunum en hann á ekki rétt á sínum staðreyndum, að búa þær til.