151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

aukin skógrækt til kolefnisbindingar.

139. mál
[16:19]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Ég vil þakka framsögumanni, hv. þm. Karli Gauta Hjaltasyni, fyrir alveg prýðilega yfirferð yfir þetta mál sem er afar þýðingarmikið og er reist á vönduðum málatilbúnaði og á nýjum rannsóknum, eins og hv. þingmaður vitnaði til. Innsti kjarni þessa máls er í upphafssetningu greinargerðarinnar með þingsályktunartillögunni. Með leyfi forseta, þá hljóðar hún svo:

„Ræktun nýrra skóga, nýskógrækt, er ein mikilvægasta og skilvirkasta náttúrulega aðgerðin sem heimsbyggðin hefur tiltæka í baráttunni við loftslagsvandann.“

Þetta er innsti kjarni málsins. Með þessari tillögu er lagt til að umhverfis- og auðlindaráðherra verði falið að vinna áætlun sem miði að því að settur verði kraftur í skógrækt, sérstaklega til kolefnisbindingar, þannig að frá og með árinu 2025 verði árlega gróðursettar 12 milljónir trjáplantna í stað 3 milljóna, eins og framsögumaður rakti í ræðu sinni.

Markmið þessarar áætlunar eru fjögur; að auka kolefnisbindingu skóga á Íslandi, að efla íslenska skógrækt, að fjórfalda árlega gróðursetningu til skógræktar á næstu fimm árum og að skapa græn störf um allt land, bæði til skamms tíma og til framtíðar.

Víðáttumikil skógur, eins og ráðgerður er með þessari þingsályktunartillögu, myndi stöðva jarðvegseyðingu, uppblástur og vatnsrof á jarðvegi, sem hefur verið alvarlegasta staðbundna umhverfisvandamál frá landnámi. Skógur á fjórðungi landsins myndi breyta veðráttunni, draga úr áhrifum vinda, færa okkur stilltara veður og þar með væntanlega aukna útiveru og um leið bætta lýðheilsu.

Fram undan eru, eins og rakið er í greinargerð, tækifæri til að ná verulegum árangri í loftslagsmálum og byggja upp auðlind til hagsbóta fyrir land og þjóð í framtíðinni. Í greinargerðinni segir að ræktun skóga hafi í för með sér margþættan ávinning, allt frá því að bæta ræktunarskilyrði fyrir akurrækt yfir í að skapa framtíðarauðlind fyrir komandi kynslóðir landsmanna. Loftslagsávinningurinn er þó líklega stærsti ávinningurinn til langs tíma og segir þar: „Með skógrækt er hægt að ná þessum markmiðum og fleirum án þess að þurfa að leggja í mikinn kostnað.“

Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér að vísa hér til svara við tveimur fyrirspurnum sem ég hef lagt fram á undanförnum árum. Vil ég tímans vegna vísa sérstaklega til fyrirspurnar til umhverfis- og auðlindaráðherra um stefnu og aðgerðir í loftslagsmálum. Þetta er á þskj. 399 á 150. löggjafarþingi. Spurt var um skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum vegna Parísarsamkomulagsins og spurt um áfangamarkmið og lokamarkmið með skilgreindum mælikvörðum og viðmiðum. Það segir í svari hæstv. ráðherra að skuldbindingar Íslands samkvæmt þessu samkomulagi verði þríþættar. Í fyrsta lagi varði þær losun frá landnotkun. Þá sé einföld krafa um að aðgerðir, svo sem skógrækt og landgræðsla, skili nettóávinningi í minni losun og aukinni kolefnisbindingu, en valdi ekki aukinni losun.

Þetta vil ég draga fram, herra forseti, til að undirstrika að þessi tillaga er í mjög góðu samræmi við þær alþjóðlegu skuldbindingar sem við höfum gengist undir í þessum þýðingarmikla málaflokki.

Herra forseti. Þetta mál, svo vandað og gott sem það er, sker sig með vissum hætti frá ýmsum málatilbúnaði hæstv. ríkisstjórnar þar sem virðist stundum skorta á hvort lagt sé upp með aðgerðir sem hafa mælanlegan árangur. Eins hefur mönnum orðið á stundum full laus höndin í skattlagningu eins og kolefnisskatturinn er skýrt dæmi um. Hann hefur hækkað bara á þessu kjörtímabili, á undanförnum þremur árum, með því sem þjóðin kannast við sem lögmál veldisvaxtar og án þess að séð verði að sú aðgerð út af fyrir sig hafi skilað marktækum árangri.

Herra forseti. Þetta mál er vandað og gott og verðskuldar stuðning hér á Alþingi.