Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 18. fundur,  17. okt. 2022.

fjarnám fólks í sérstökum aðstæðum.

254. mál
[17:34]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir, og fyrir að vera ötull talsmaður fjarnáms á Íslandi sem ég tel gríðarlega mikilvægt að við höldum uppi góðri umræðu um, sér í lagi eftir reynslu skólanna eftir heimsfaraldur þar sem allir þurftu að stíga talsvert stærri skref í átt til framtíðar og notkunar á stafrænni tækni. Verandi líka ráðherra stafrænna mála að hluta, þá tel ég þetta gríðarlega mikilvægt og hef heyrt í ungu fólki um allt land sem bendir reglulega á lítið framboð fjarnáms.

En það er tvennt sem ég hef nú þegar stigið skref í átt að. Það er annars vegar að vinna að sameiginlegri umsóknagátt háskólanna þar sem mun sjást hvaða skólar bjóða upp á fjarnám. Mögulega mun myndast svona jákvæð samkeppni milli skólanna þegar þú innritar þig á einum stað og færð betri upplýsingar um það fjölbreytta nám sem er í boði. Markmiðið með þessu er að nemendur taki upplýstari ákvarðanir. Þarna eru líka ákveðin tækifæri til að velja, ef þú vilt fara í fjarnám þá sérðu hvað allir skólar landsins bjóða upp á á einum og sama staðnum. Hitt er síðan að stýra fjármunum og búa til fyrstu fjárhagslegu hvatana fyrir skólana að fara í fjarnám, við munum kannski ræða hér samstarfssjóð háskólanna betur á eftir. Það á enginn að þurfa að sitja eftir en á sama tíma þarf að tryggja að gæði námsins haldist þegar þú hleypir ákveðnu fólki í fjarnám, að það sé ekki almennt fjarnám, og sumir skólar hafa tekið gríðarlega stór skref í námi þar sem þú getur bæði setið inni í kennslustofu en líka heima eða annars staðar. T.d. hefur Háskólinn á Akureyri verið með alveg sérstakar skólastofur og er framarlega á þessu sviði, en líka Háskólinn á Bifröst. Sum lönd hafa tekið þau skref að það séu ákveðnir skólar sem eru góðir í fjarnámi, sem setja það á oddinn gagnvart öllu því námi sem þau veita og spegli síðan nám annarra skóla sem setja fjarnám ekki á oddinn. Þannig hafa þau náð meiri árangri og hraða í að setja fjölbreyttara nám í fjarnám.

Ég átti vinnufund í síðustu viku með öllum rektorunum þar sem við sátum að stærri stefnumótun, m.a. um stafræna þróun náms. Þar sátu allir rektorarnir saman ásamt fleiri aðilum úr háskólasamfélaginu með okkur í ráðuneytinu og ræddu m.a. stærri mynd og þessa þróun. Sú umræða hefur ekki komið upp að skilgreina háskólanema sérstaklega af stjórnvöldum þar sem það hefur reynst erfitt að setja þá kröfu á háskólana. En háskólarnir allir eiga auðvitað að leggja sig fram um að bregðast við sérstökum aðstæðum nemenda með auknum sveigjanleika eftir því sem mögulegt er, og læra af þeim skólum sem gera vel í löndunum í kringum okkur. Stundum þarf ekki alltaf að finna upp hjólið heldur einmitt að skoða, eins og hv. þingmaður kemur inn á, leiðir sem aðrir framúrskarandi skólar í löndunum í kringum okkur hafa farið til að sýna stöðu þess hóps sem nefndur var hér meiri skilning og sveigjanleika.