154. löggjafarþing — 18. fundur,  19. okt. 2023.

staðan í efnahagsmálum.

[10:32]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Forseti. Þegar ráðherra hefur misst trúverðugleika getur verið gott að það komi maður í manns stað. Í mannabreytingum geta falist mikil tækifæri ef þeim fylgja raunverulega breyttar áherslur, breytt stefna. Ég vil óska hæstv. fjármálaráðherra góðs gengis. Hún erfir erfitt bú og verkefnin eru ærin. En ég vil líka óska þess, og ég hugsa að ég tali fyrir marga landsmenn, að hæstv. fjármálaráðherra hafi kjark og styrk til að taka upp raunverulega breyttar áherslur, ekki síst í baráttunni við verðbólgu og vexti. Ég kalla eftir forystu og hæfni í stjórn efnahagsmála, skýrum skilaboðum til landsmanna um að nú verði skipt um kúrs. Hæstv. fjármálaráðherra er nefnilega nýtekin við valdamestu stöðu í íslensku efnahagslífi. Hún gæti haft áhrif strax í dag á verðbólguvæntingar með afdráttarlausri yfirlýsingu um að nú verði verðbólgan tekin alvarlega með viðurkenningu á því að viðureignin við verðbólguna hefur ekki gengið nógu vel og að það gangi ekki að bjóða bara upp á meira af því sama. Fyrrverandi fjármálaráðherra hélt því fram að það væri ekki hlutverk ríkisfjármálanna að vinna bug á verðbólgunni. Með slíkum yfirlýsingum dró ráðherrann úr eigin trúverðugleika og ýtti undir meiri verðbólgu en ella. Það væri t.d. ágætisbyrjun hjá hæstv. fjármálaráðherra að draga þessi orð forvera síns til baka og lýsa því yfir fullum fetum að það sé víst hlutverk ríkisstjórnarinnar að vinna bug á verðbólgu og endurheimta hér efnahagslegan stöðugleika.

Því vil ég spyrja hæstv. fjármálaráðherra tveggja spurninga. Í fyrsta lagi: Er hún sammála forvera sínum um að það sé ekki hlutverk ríkisfjármálanna að vinna bug á verðbólgunni? Í öðru lagi: Munum við sjá breyttar áherslur með nýjum fjármálaráðherra í baráttunni við verðbólgu og háa vexti eða munum við bara áfram sjá meira af því sama?