131. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2004.

Þróun verðbólgu og forsendur kjarasamninga.

[13:31]

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Það er frumskylda sérhverrar ríkisstjórnar að tryggja efnahagslegan stöðugleika. Ríkisstjórn Halldórs Ásgrímssonar virðist hins vegar vera of veik til að hún geti tryggt þennan nauðsynlega stöðugleika. Það eru æ fleiri teikn á lofti um að ríkisstjórnin sé að missa tökin á verðbólgunni þannig að forsendur kjarasamninga kunni að bresta.

Greiningardeild Landsbankans spáir því að innan árs muni verðbólgan fara yfir þolmörk Seðlabankans og að lokum yfir 6%. Þetta er meira en tvöfalt það hámark sem peningastefna Seðlabankans leyfir. Bankinn segir fullum fetum að ríkisstjórnin sé að gera sömu mistök og í síðustu uppsveiflu og að ríkisstjórn Halldórs Ásgrímssonar læri ekki neitt af reynslunni.

Hagdeild ASÍ hefur tekið í sama streng. Hún birti fyrir skömmu spá þar sem gert er ráð fyrir því að verðbólgan muni sprengja forsendur kjarasamninga um þróun verðlags. Þetta er falleinkunn á fyrsta prófinu sem lagt er fyrir nýjan forsætisráðherra.

Þessi staða á ekki að þurfa að koma upp. Þær umbætur í efnahagsmálum sem ríkisstjórnir jafnaðarmanna, framsóknarmanna og sjálfstæðismanna hafa gert í efnahagsmálum frá því á seinni hluta níunda áratugarins hafa ekki aðeins búið til kraftmikið heldur líka sveigjanlegt efnahagskerfi. Reglubundnar dýfur af þessu tagi eru þess vegna ekkert lögmál. Það er hægt að komast hjá þeim ef ríkisstjórn fylgir ábyrgri stefnu eins og er sérstök nauðsyn á tímum þenslu eins og núna þegar miklar fjárfestingar í stóriðju skapa vaxandi viðskiptahalla.

Ríkisstjórnin hefur hins vegar ekki fylgt nægilega ábyrgri stefnu. Dæmi um það eru gáleysislegar yfirlýsingar hennar um 23 milljarða skattalækkanir sem skapa væntingar sem hvetja landsmenn til eyðslu. Þetta er ekki sísta ástæðan fyrir gríðarlegum og vaxandi viðskiptahalla sem meira að segja ríkisstjórnin sjálf segir núna að muni skapa vandkvæði.

Helmingur viðskiptahallans stafar af mikilli aukningu í einkaneyslu. Ég fullyrði að þessa aukningu má að stórum hluta rekja til gálausra og eyðsluhvetjandi yfirlýsinga um skattalækkanir sem ríkisstjórnin hefur verið vöruð við af Hagfræðistofnun háskólans, ASÍ og Seðlabankanum. Svo þykist hæstv. ríkisstjórn ætla að vinna gegn þenslunni með því að skila afgangi á fjárlögum. Því trúir enginn maður og allra síst þær fjármálastofnanir sem starfa á markaðnum. Þær þekkja feril ríkisstjórnarinnar í þessum efnum. Það var þessi ríkisstjórn sem ætlaði að skila samtals 75 milljörðum í afgang á árunum 2000–2003. Niðurstöðurnar urðu 10 milljarðar í halla. Það var þessi ríkisstjórn sem sprengdi sinn eigin útgjaldaramma á þessum tíma um 28 milljarða á ári að meðaltali. Það þætti ekki góður rekstur á hóteli mömmu.

Lausatök ríkisstjórnarinnar eru svo ábyrg fyrir því að knýja Seðlabankann til að hækka stýrivexti sem hækka fjármagnskostnað og greiðslubyrði einstaklinga og smærri fyrirtækja en ekki þeirra fyrirtækja sem eru nægilega sterk til að taka lán erlendis. Þess vegna munu afleiðingar vondrar efnahagsstjórnunar bitna langverst á einstaklingunum, fjölskyldunum og smáfyrirtækjunum.

Frú forseti. Þegar gengið var frá kjarasamningum á almennum vinnumarkaði í mars gekk verkalýðshreyfingin út frá því að verðbólgan yrði nálægt 2,5% sem er verðbólgumarkmið Seðlabankans. Í dag er verðbólgan komin vel upp fyrir það, því er spáð að hún fari í 4% á næsta ári og greiningardeild Landsbankans spáir því að hún fari að lokum yfir 6% ef ríkisstjórnin grípur ekki í taumana. Fái verðbólgan að þróast með þeim hætti sem hagdeild ASÍ hefur spáð er veruleg hætta á því að kjarasamningum verði sagt upp í árslok 2005 og þá er veruleg hætta á því að stöðugleikinn bresti.

Ég vil því spyrja hæstv. forsætisráðherra: Hvað ætlar þessi ríkisstjórn að gera til að koma böndum á verðbólguna og tryggja að stöðugleikinn haldist?