135. löggjafarþing — 19. fundur,  6. nóv. 2007.

tekjutap hafnarsjóða.

39. mál
[13:54]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég óska hv. þm. Bjarna Harðarsyni til hamingju með að hafa flutt hér inni á þingi sjálfstætt mál, eins og þingmaðurinn komst að orði og vonandi eiga þau eftir að verða fleiri og örugglega mörg hver enn þá betri.

Varðandi þá tillögu sem hér er flutt af þremur hv. þingmönnum Framsóknarflokksins um mótvægisaðgerðir vegna tekjutaps hafnarsjóða í kjölfar niðurskurðar á þorskkvóta þá tek ég undir þau sjónarmið sem þar koma fram um að hafnirnar munu eiga í gríðarlegum vandræðum. Hafnirnar vítt og breitt um landið hafa verið í vandræðum með rekstur sinn og reyndar líka stofnkostnaðinn núna síðustu árin. Niðurskurður á aflaheimildum og minnkandi umsvif í gegnum hafnirnar munu enn auka þar á. Ég tek alveg undir þetta hjá hv. þingmanni.

Þær aðgerðir sem grípa þarf til, bæði til að rétta almenna stöðu hafnanna og einnig í ljósi eða reyndar í myrkri þessa niðurskurðar á þorskkvóta sem bitnar hart á höfnunum, sem eru í gríðarlegri fjárþörf, þá er það er algerlega óábyrgt af hálfu stjórnvalda að þau skuli ekki koma með ítarlegri tillögur að úrlausn á þeim bráðavanda sem hafnarsjóðir standa frammi fyrir.

Eins og hv. þingmaður minntist á er aðeins getið um aðgerðir í svokölluðum mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar vegna niðurskurðar á aflaheimildum um að mig minnir 200 millj. kr. á ári næstu tvö árin til þess að styrkja stöðu hafnarsjóða, sem er bara dropi í hafið hvað það varðar, og er allt, allt of lág upphæð og í rauninni fjarri þeim raunveruleika sem hafnirnar standa frammi fyrir, því miður. Ég tek því undir þær áherslur sem koma fram hjá hv. þingmanni um að það þurfi að gefa mun meira í hvað þetta varðar.

Hins vegar tel ég að þau fjárframlög sem hafa verið kynnt til mótvægisaðgerða vegna niðurskurðar á þorskafla séu svo lítil og ónákvæm og vanmáttug í sjálfu sér að þeim sé ekki frekar skiptandi. Mér finnst því ekki vera hægt að ætla að taka af því fjármagni sem nú hefur verið boðað í almennar og sértækar aðgerðir vegna þessara verkefna heldur eigi að koma þar inn nýtt fjármagn. Það þarf að koma inn aukið fjármagn og ríkisstjórnin þarf að viðurkenna þá staðreynd að hafnirnar eru í miklum vandræðum, en það virðist hún ekki gera.

Þetta höfum við séð af ályktunum sem hafa komið frá samtökum sveitarfélaga vítt og breitt um landið. Frá fjórðungsþingi Vestfjarða kom mjög afdráttarlaus krafa um aukinn stuðning við hafnirnar og einnig frá Norðurlandi vestra, ég hef í höndunum ályktun frá þeim, sömuleiðis frá Snæfellsnesi. Þau framlög sem ríkisstjórnin hefur nú í hyggju að setja í þessar mótvægisaðgerðir og til hafnamála eru allt of lág og hverfandi og fjarri þeim raunveruleika og þeirri þörf sem þar er brýn.

Ég vil árétta þá skoðun mína og okkar þingmanna í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði að hafnirnar séu hluti af hinum almennu mannvirkjum til þjónustu við atvinnulíf og samgöngur í landinu. Sú lagabreyting var gerð á hafnalögunum, fyrir líklega fjóru og hálfu ári, að farið var út í að einkavæða hafnirnar, að láta hverja höfn standa uppi sem samkeppniseiningu, hún ætti að fara að keppa við hafnirnar í næsta byggðarlagi. Það hefur komið í ljós að hafnalög sem keyrð voru í gegnum þingið að mig minnir árið 2003 eru alveg fráleit. Ég vil minna á að þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs bentu á það hér á Alþingi að ætla að fara að einkavæða hafnir landsins og láta þær reka sig á samkeppnisgrunni væri algerlega fráleitt. Það var hægt að hugsa sér slíkt með tvær hafnir, höfnina á Grundartanga og höfnina í Reykjavík. En þær höfðu hvort sem var einokunarstöðu eða fákeppnisstöðu þannig að breyting á lagaumhverfi þeirra í að gera þær að samkeppnishöfnum var í sjálfu sér út í hött. En að ætla sér að fara að einkavæða og setja í samkeppnisform hafnir á Vestfjörðum, Norðurlandi, Norðausturlandi víðast hvar, var alveg fráleitt. En það var keyrt í gegn og m.a. af Framsóknarflokknum.

Ég efast um að hv. þm. Bjarni Harðarson mundi hafa stutt þetta á sínum tíma því mér líst svo vel á margt í málflutningi hans. En engu að síður var það Framsóknarflokkurinn sem gerði það mögulegt að hleypa þessari einkavæðingu á höfnunum í gegn og Samfylkingin studdi það reyndar.

Nú hafa komið fram kröfur frá sveitarfélögunum vítt og breitt um að fresta gildistöku þessara laga, ákveðinna greina í þeim. Lögunum var gefinn aðlögunartími, m.a. hvað varðaði þennan samkeppnisþátt og búið er að fresta gildistöku a.m.k. einu sinni ef ekki tvisvar síðan lögin voru samþykkt og nú er komin krafa um að fresta þessu einu sinni enn. Sem sýnir okkur bara hversu mikið óheillaspor og vitleysa þessi lagasetning var, að ætla að láta hafnir landsins fara að reka sig á samkeppnisgrunni.

Það er mjög brýnt og ég tek undir þær kröfur sem komið hafa frá langflestum sveitarfélögum landsins um að breyta þurfi hafnalögum með þeim hætti að hafnirnar séu viðurkenndar sem ein af grunnstoðum atvinnulífs og búsetu þar sem þær eru en ekki einhver samkeppnistæki sem reki sig á samkeppnisgrunni.

Fjárhagsleg staða hafnanna er mjög alvarleg. Það er ekki komið til móts við erfiðleika þeirra og stöðu þeirra hvað varðar fjármagn, hvorki í svokölluðum mótvægisaðgerðum né með almennum hætti. Þær eru undirstaða atvinnulífsins í sjávarbyggðunum og á ekki að vera að leika sér að þeim eins og ríkisstjórnin hefur verið að gera. Þannig að það markmið sem hv. þingmaður gerði grein fyrir hér varðandi þessar tillögur um að það þurfi að stórbæta og efla tekjugrunn og fjárhagsstöðu hafnanna vítt og breitt um landið tek ég afdráttarlaust undir.