136. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2008.

hámarksmagn transfitusýra í matvælum.

45. mál
[15:57]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Hér er um að ræða mikilvægt heilbrigðismál og að mínu viti einboðið að bregðast hratt við, fara að fordæmi Dana og minnka, að minnsta kosti um helming, neyslu Íslendinga á transfitusýrum, hertri fitu, niður í 2 grömm af hverju hundraði. Við verðum að átta okkur á því að neysla transfitusýra eða umbreyttra fitusýra hefur aukist gríðarlega síðastliðin hundrað ár sem og þau heilsufarslegu vandamál sem því hafa fylgt. Fitur hafa verið hertar með þessu móti allt frá því upp úr aldamótunum 1900. Fyrsta einkaleyfið var veitt á herðingu jurtafitu á árinu 1911 þegar hin fræga bandaríska Crisco-feiti var búin til.

Þetta þótti góð tækni. Herðing eykur geymsluþol jurta og fiskifitu. Herðingin breytir áferðinni þannig að auðveldara verður t.d. að nýta afurðina sem viðbit. Gríðarlega mikill áróður var rekinn fyrir notkun þessarar fitu og jafnframt gegn dýrafitu og kókosfeiti sem eru hvort tveggja náttúrulegar fitur, eins og smjörið okkar og kókosfeitin, og hafa reynst miklum mun hollari og meinhollar í samanburði við þessa hertu fitu.

Þær fitur sem hér um ræðir eru búnar til við kemískt ferli. Þetta eru ekki náttúrulegar fitur þó að þær finnist í dýraafurðum, sérstaklega hjá kúakyninu þar sem örverur mynda transfitusýrur í vömb jórturdýra. Þaðan er upprunnið það sem er náttúrulegt af þessu. Allar aðrar transfitusýrur, hertar fitur, eru búnar til við efnafræðilegt ferli og eru algjörlega ónáttúrulegar líkamanum, gjörsamlega framandi og virka á hann eins og eitur.

Melting manna er mjög sérhæfð og líkami manna bregst á mismunandi hátt við því sem inn í hann fer. Til eru tvö form af öllum lífrænum fitum, svokölluð cis og transform — og nú er ég farin að halda hér smákennslufyrirlestur yfir hv. þingmönnum og komin í minn gamla ham sem lífefnafræðikennari. (Gripið fram í.)

En þessi tvö form, cis og trans, geta aldrei komið hvort í annars stað. Líkaminn getur á engan hátt nýtt transfituna. Þetta er eins og hendurnar á okkur. Þær eru spegilmynd hvor af annarri en geta aldrei komið hvor í stað hinnar. Og ensímið sem brýtur niður fituna, lípasinn sem brýtur niður fitu í líkama manna, ræður ekki við þetta tilbúna kemíska form, þessar transfitusýrur. Þess vegna nýtast þær ekki í líkamanum. Þessi tegund fitu dvelur miklum mun lengur í blóðinu en hin fitan, sú náttúrulega, og veldur þess vegna miklu meiri áhættu, m.a. á blóðtappa, og þetta ferli er mjög þekkt. Ég nefndi áðan að þessar transfitusýrur virkuðu eins og eitur fyrir líkamann og það er vegna þess að mótstöðuafl líkamans verður upptekið við að hreinsa þetta efni sem ekki getur nýst úr blóðinu og sinnir þá ekki öðru á meðan.

Það var ánægjulegt að heyra þá yfirlýsingu Jóa Fel í útvarpsviðtali síðastliðið sumar — en hann er jafnþekktur á Íslandi og Jói pípari er nú í Bandaríkjunum — að bakarar á Íslandi væru hættir að nota hálfhertar fitur í framleiðslu sína, og er það vel. Það þýðir að menn nota þá væntanlega fullhertar fitur. En ef fljótandi jurtafita er fullhert verður hún bara að köggli og til þess að hægt sé að nota hana sem viðbit, til eldunar eða í bakstur þarf að bæta í hana olíu. Þetta virðist vera sú leið sem bakarar hafa farið og það er vel.

Ég hef líka fengið staðfestingu á því að þeir íslenskir framleiðendur sem selja viðbit, undir þekktum vörumerkjum eins og Smjörvi eða Létt og laggott, eru líka hættir að nota transfitusýrur í framleiðslu sína og það er líka mjög gott og veitir ekki af. Hins vegar vantar algjörlega opinbera staðfestingu á því að svo sé í öllum tilfellum. Það er þess vegna sem setja þarf reglur, eins og þessi þingsályktunartillaga gerir ráð fyrir, þannig að hægt sé að fá á því staðfestingu að með þessu sé eftirlit, að þessu sé fylgt eftir og eins konar vottun sé á þessu ferli.

Ég get ekki stillt mig um að ítreka það sem 1. flutningsmaður, hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, sagði hér áðan um þá sem eru viðkvæmastir fyrir neyslu á transfitusýrum. Það eru að mínu viti tveir hópar. Það eru þeir sem liggja í skyndibitanum — og það eru því miður ekki bara vörubílstjórar, það væri þá smærri markhópur, heldur eru það börn og ungmenni, sérstaklega hvað varðar djúpsteiktan mat og þá einkum franskar kartöflur. Ég hef séð niðurstöður rannsóknar frá New York frá árinu 2005 en sú rannsókn er ein af forsendunum fyrir því að notkun á transfitusýrum til djúpsteikingar á veitingastöðum í New York var bönnuð. Rannsóknin leiddi í ljós að það var 28 sinnum meira af transfitum í feitinni þar en í Danmörku. Þetta var á McDonald's-skyndibitastöðum. Nú er þetta ástand væntanlega breytt með banni á notkun slíkrar feiti í New York en ekkert eftirlit er með því hér á landi hvernig þessu er háttað og þess vegna þarf að setja þessar reglur.

Ég vil að lokum nefna þann hóp sem getur enga björg sér veitt í þessu efni, getur ekki lesið á innihaldslýsingar og getur ekki einu sinni valið hvað fer ofan í hann, en það eru ungbörn, það eru börn á brjósti. Rannsóknir hafa sýnt að magn transfitusýra í móðurmjólkinni sveiflast eftir því hve mikið af þeim móðirin leggur sér til munns. Það endurspeglast síðan í magni transfitusýra í blóði ungbarnsins hvað þau láta mikið af því ofan í sig með móðurmjólkinni.

Hér er að mörgu að hyggja og eitt er víst að ég tel að þetta eigi líka erindi í heilbrigðisnefnd. Ég velti því fyrir mér frú forseti: Hér er reiknað með því að þetta fari í samræmi við matvælalöggjöfina til sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar og mig langar að óska eftir því, vegna þess hversu brýnt heilbrigðismál þetta er, að einnig verði kallað eftir því að málið fari til umsagnar í hv. heilbrigðisnefnd.