136. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2008.

áfengislög.

54. mál
[16:52]
Horfa

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Á Íslandi er bannað að auglýsa áfengi. Engu að síður birtast bæði í blöðum og sjónvarpi auglýsingar um áfengi. Þetta komast sölumenn upp með að gera vegna þess að í áfengislögunum, nr. 75/1998, er glufa. Þetta frumvarp til laga er tilraun til að stoppa í þá glufu.

Hér fylgir ítarleg greinargerð. Hana samdi starfshópur sem skipaður var árið 2000 og skilaði af sér í nóvember árið eftir og þar er að finna tillögu sem frumvarpið byggir á. Vinnuna inntu aðrir af hendi, en ég og meðflutningsmenn mínir höfum tekið að okkur að vera dropinn sem holar steininn. Við hefðum gjarnan viljað að þessi einfalda lagabreyting væri þegar orðin að veruleika. Við erum, auk mín, hv. þingmenn Magnús Stefánsson, Karl V. Matthíasson, Jón Magnússon, Þuríður Backman og Gunnar Svavarsson, fólk úr öllum flokkum á þingi að undanskildum Sjálfstæðisflokknum.

Við leggjum fram tillögu um breytingu á áfengislögunum til að minni líkur verði á að menn misnoti lögin og smeygi sér um glufuna sem þar er að finna. Við viljum láta bæta einum málslið við 20. gr. laganna með það fyrir augum að koma í veg fyrir að hætta verði á ruglingi á milli áfengrar framleiðslu og þeirrar sem verið er að auglýsa, vegna nafns vörunnar, umbúða eða annarra einkenna. Á þessa leið hljómar breytingin.

Við höfum flutt þetta frumvarp á fjórum þingum. Það hefur ekkert verið gert. Við sjáum þessar auglýsingar aftur og ítrekað. Dómstólar hafa því miður brugðist í málinu, þeir hafa hysjað upp um sig núna upp á síðkastið, sem er mjög gleðilegt. Benda má á að samtök fólks hafa verið stofnuð um þetta, upphaflega að frumkvæði Árna Guðmundssonar, sem var æskulýðsfulltrúi í Hafnarfirði. Árni er kröftugur maður og hópurinn, sem hefur skipað sér í baráttusveit með honum, góður. Í þjóðfélaginu eru ýmsir sem vilja ýta á og þrýsta á að lagabreytingin verði að veruleika.

Ég ætla ekki að fjölyrða um þetta. Rökin hafa áður komið fram á fjórum þingum, ég bæti ekki neitt með því að þusa um þetta lengi í ræðustól en hvet til þess að málið fái skjóta afgreiðslu í allsherjarnefnd þingsins, þar sem það á heima, og verði brátt að lögum.