137. löggjafarþing — 19. fundur,  15. júní 2009.

niðurfelling persónulegra ábyrgða starfsmanna Kaupþings.

[15:19]
Horfa

viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Ég held að ég verði því miður að viðurkenna að ég treysti mér ekki til að svara síðari hluta spurningarinnar, þ.e. hvaða lög ná ekki yfir þennan gjörning. Mér skilst að lögfræðingar Nýja Kaupþings telji að það sé ekki hægt að snúa þessari ákvörðun við, það sé ekki lagagrundvöllur til þess. Hins vegar ætla ég ekki að reyna að telja hér upp lagagreinar með eða á móti, það er ég hreinlega ekki með í kollinum.

Hvað það varðar að aðrir bankar séu með sambærileg mál eða sambærilegar beinagrindur í skápnum tel ég alveg víst og það hefur reyndar komið fram opinberlega að aðrir bankar lánuðu einnig sínum starfsmönnum og felldu niður lán vegna þeirra í einhverjum tilfellum. Formlega séð var kannski eitthvað aðeins öðruvísi staðið að málum þannig að það getur verið að efnislega verði tekið á því eitthvað öðruvísi (Forseti hringir.) en þessi plagsiður var ekki bundinn við Kaupþing eitt.