138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

persónukjör -- atvinnumál -- fjárheimildir ríkisstofnana.

[13:51]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna ummælum hv. þm. Sigmundar Ernis Rúnarssonar um atvinnuuppbyggingu og afstöðu hans í því máli. Ég vona að málflutningur hans eigi sér fleiri talsmenn innan Samfylkingarinnar. (Gripið fram í.) Hann er opinn fyrir því að hér verði frekari stóriðjuuppbygging, sem er alveg klárlega mikil þörf á, og að þar með verði nýttar náttúruauðlindir okkar í þágu þess. Mér fannst sérstaklega áhugaverð fullyrðing hans, og ég efast ekkert um að hv. þingmaður hefur skoðað þetta mál, um að ferðaþjónustan, sem margir nefna nú sem helsta vaxtarbrodd í okkar samfélagi og er hún það klárlega, mengi meira en stóriðjan í landinu. Það má kannski gera frekari samanburð í þessum efnum.

Eins og fram hefur komið og áréttað er í skýrslu Hagfræðistofnunar fyrir iðnaðarráðuneytið um stóriðju eykur þetta mjög á fjölbreytni starfa í landinu. Það er alveg ljóst að af stóriðju hafa sprottið mörg sprotafyrirtæki og það eru mörg fyrirtæki úti um allt land, hundruð ef ekki þúsundir fyrirtækja sem byggja afkomu sína meira og minna á þjónustu og tekjum frá þessum stóru fyrirtækjum og þjónustu við þau.

Afstaðan hjá ríkisstjórnarflokkunum veldur miklum áhyggjum, hversu djúpstæður ágreiningur virðist vera innan flokkanna þegar kemur að stefnu í þessum mikilvæga málaflokki og hversu mikið sjónarmiðin hjá þessum flokkum stangast á. Því er ekki að neita að sporin hjá Samfylkingunni hræða og það er ljóst að þar er armur innan dyra hjá þingmönnum sem er á sveif með Vinstri grænum í þessum málum. Vil ég þar nefna aðgerðir fráfarandi hæstv. umhverfisráðherra varðandi þær tafir sem hún olli á Bakka. (Forseti hringir.) Það verður því ítrekað hér, virðulegi forseti, að þetta stjórnarmynstur er ekki líklegt til þess að efla atvinnuuppbyggingu (Forseti hringir.) og það er okkur mikilvægt að farið verði að horfa í aðrar áttir í þeim efnum.