138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

störf án staðsetningar.

34. mál
[14:10]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Það er ástæða til að fagna þessari umræðu sem er þörf og mikilvæg nú um stundir. Við þingmenn Norðausturkjördæmis og væntanlega fleiri þingmenn í þessu húsi vorum nýverið í kjördæminu. Þar er áberandi að ótti fólks almennt er í þá veru að opinberum störfum muni fækka úti á landi og að ekki verði gripið helst niður á þenslusvæðunum suðvestanlands í því efni heldur fyrst og fremst úti á landi. Það verður því sérstaklega horft til þess hvernig stjórnvöld fara með nýja sóknaráætlun þegar kemur að byggðum landsins.

Mér finnst mjög mikilvægt að hafa eitt að leiðarljósi í þessu efni. Það er þjóðhagslega hagkvæmt að hafa störf úti á landi. Það hefur verið skoðað og niðurstaðan er augljós. Leiguhúsnæði er ódýrara, starfsmannavelta minni og viðvera fólks meiri þannig að ég held að einmitt á þessum tímum eigi að hafa þjóðhagslega hagkvæmni í huga þegar við förum að beita ríkissjóð aðhaldi.