138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

aðild að fríverslunarbandalagi Norður-Ameríku og Mexíkó.

50. mál
[14:40]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Sigurði Jóhannssyni fyrir að taka þetta mál hér upp og beina fyrirspurn til hæstv. utanríkisráðherra um mögulega aðild að NAFTA og aukið samstarf vestur um haf. Ég held að þarna sé óplægður akur og þarna eigum við að sækja miklu meira fram, til að mynda til Kanada. Ég ræddi nýverið við sendiráð Kanada hér á Íslandi og þar skildist mér að til að mynda hjá stjórnvöldum í Kanada hefði verið fullur vilji þegar hrunið varð hér í haust að stórefla samstarf og stuðning við Íslendinga en einhverra hluta vegna hefur ávallt verið horft til Evrópusambandsins. Ég beini þeirri áskorun minni til utanríkisráðherra að hann hefji vinnu í þessa átt því að hann veit jafn vel og ég að íslenska þjóðin mun hafna ESB-aðildinni og þá er gott að líta vestur um haf og líta á þá möguleika sem við eigum þar. (VigH: Heyr, heyr.)