140. löggjafarþing — 19. fundur,  9. nóv. 2011.

störf þingsins.

[15:33]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil undirstrika ákaflega mikilvæga yfirlýsingu sem kom fram hjá hv. þm. Helga Hjörvar áðan þegar hv. þingmaður sagði að það væri vilji sinn og skoðun sín að sambærilegar reglur ættu að gilda þegar kæmi að skuldauppgjöri heimilanna. Í því sambandi var hann auðvitað fyrst og fremst að vísa til Íbúðalánasjóðs sem við ræddum um fyrr á fundinum.

Tilefni þess er að Landsbankinn kynnti í vor reglur sínar til að takast á við skuldavanda heimilanna þar sem gert er ráð fyrir að meðskuldir sem hvíla á íbúðarhúsnæði í eigu einstaklinga umfram 110% af fasteignamati séu lækkaðar. Jafnframt ætlaði bankinn að endurgreiða 20% af öllum vöxtum sem greiddir voru á tímabilinu 31. desember 2008 til 30. apríl 2011. Það er ljóst að þarna gengur bankinn lengra en aðrar fjármálastofnanir. Það hefur til dæmis komið fram í því að ein fjármálastofnunin hefur ákveðið að kæra þetta og telur að hér sé um að ræða óeðlilega markaðsmisnotkun skulum við segja.

Íbúðalánasjóður er í eigu ríkisins. Landsbankinn er í eigu ríkisins. Sami eigandinn er að þessum tveimur fjármálastofnunum. Þó gilda ólíkar reglur hjá þeim um hvernig skal farið með málefni skuldugra heimila. Það getur auðvitað ekki gengið. Þegar hv. þm. Helgi Hjörvar segir með réttu að eðlilegt sé að um þetta gildi sambærilegar reglur, hljótum við að túlka það sem svo að verið sé að beina þeim tilmælum til stjórnvalda, Íbúðalánasjóðs líka eftir atvikum, að það beri að framkvæma þetta með þeim hætti sem Landsbankinn hefur verið að kynna og að Íbúðalánasjóður geti ekki verið þar eftirbátur. Þá hljótum við líka að kalla eftir næstu skrefum. Það er ekki nóg að við ræðum þetta í þingsal. Við höfum löggjafarvaldið og ég hlýt að kalla eftir því að hæstv. ríkisstjórn eða stjórnarliðar hafi frumkvæði að því að flytja um þetta mál (Forseti hringir.) þannig að þetta jafnræði sem hv. þingmaður var að kalla eftir, verði að lögum.