140. löggjafarþing — 19. fundur,  9. nóv. 2011.

Vestfjarðavegur 60.

[16:00]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Það er að verða svolítið þreytandi að við sem búum úti á landi, og áttum okkur á því að það hallar undan fæti hjá landsbyggðinni, þurfum að koma hér í hvert einasta skipti sem minnst er á vegaframkvæmdir eða samgöngubætur og verja það með einum eða öðrum hætti. Í þessu tilfelli er láglendisvegur algjört skilyrði. Ég vona að stjórnvöld átti sig á vilja heimamanna í þá veru.

Það liggur líka fyrir að búið er að staðfesta aðalskipulag fyrir Reykhólahrepp þar sem leið B var samþykkt. Ég vona svo sannarlega að hæstv. innanríkisráðherra auki ekki á flækjustigið með því að nefna allar aðrar leiðir og setja allt upp á borðið hvað það varðar.

Vestfjarðavegur er vegur sem jú færri en þeir sem búa á höfuðborgarsvæðinu keyra um. Þeir eru ekki í mínu kjördæmi, en ég ætla svo sannarlega einhvern tímann að nýta mér þær samgöngur sem þar munu vonandi sem allra fyrst verða að veruleika.

Ég man eftir því fyrir ekki svo löngu þegar Hófaskarðsleiðin var opnuð á norðausturhluta landsins að þar kom hæstv. innanríkisráðherra, klippti á borðann og sagði eitthvað á þá leið: Ég skil nú betur kröfu almennings á fámennum svæðum fyrir auknum samgöngubótum.

Ég vona svo sannarlega að hann beiti sér fyrir því að vegasamgöngur á þessu svæði verði bættar sem allra, allra fyrst.

Auðveldasta leiðin til að eyðileggja verkefnið er einmitt að auka flækjustigið, taka öll málefni aftur. Þannig deyja verkefni. Þannig hefur, vil ég meina, þessi ríkisstjórn stundum unnið áður, því miður.