141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

Byggðastofnun.

162. mál
[14:52]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi fyrri spurninguna er svarið við henni því miður já. Að sjálfsögðu hefur Byggðastofnun tekið á sig umtalsvert högg í tengslum við hrunið eins og allar aðrar fjármálastofnanir sem áttu útistandandi eignasafn í formi lána til viðskiptavina. Þess hefur séð stað meðal annars í því að eigandinn, ríkið, hefur orðið að leggja stofnuninni til ítrekað núna a.m.k. í tvígang aukið eigið fé til að mæta þeim afskriftum sem stofnunin hefur orðið að taka á sig vegna tapaðra útlána.

Þess verður að gæta í þessu tilviki að Byggðastofnun er í sama hópi og örfá önnur fjármálafyrirtæki, þ.e. einir þrír sparisjóðir, einn einkarekinn banki og kannski nokkrir aðrir aðilar, að hafa ekki fengið í gegnum fjármálalega endurreisn eða fjármálalega endurskipulagningu einhverja niðurskrift eða endurmat á sínu eignasafni, eins og gerðist í tilviki stóru bankanna þegar þeir féllu og nýju bankarnir voru settir á fót og yfir í þá færðar eignir á móti skuldum sem voru með miklum afslætti eins og við öll þekkjum. Þessa hefur auðvitað séð stað og mun sjá stað í því að þær stofnanir sem ekki búa að því að hafa fengið endurmat á eignasafni sínu í gegnum einhverja slíka leið á grundvelli neyðarlaganna eða með öðrum hætti verða bara að horfast í augu við afskriftir á eignasafni sínu. Og það hefur skapað sparisjóðum, Byggðastofnun, Íbúðalánasjóði og fleiri slíkum aðilum mikla erfiðleika og umtalsvert fjárhagslegt tjón því að sjálfsögðu kemur höggið niður á þessum eignasöfnum rétt eins og það gerði á öðrum sem voru inni í stóru bönkunum.

Ég held að svarið sé einfalt við seinni spurningunni. Þetta er ríkisstofnun í eigu ríkisins og starfar í umboði þess og á ábyrgð þess og að sjálfsögðu stendur ríkið á bak við starfsemina og það er óhugsandi að hún verði látin fara í þrot.