142. löggjafarþing — 19. fundur,  2. júlí 2013.

veiðigjöld.

15. mál
[15:25]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Þingmenn Pírata hafa í þessu máli skorað með yfir 34 þúsund landsmönnum á forsetann að hann synji lögum um lækkun veiðigjalda staðfestingar og skjóti málinu í þjóðaratkvæðagreiðslu. Fyrir helgi sendum við forseta Íslands bréf um að við mundum þæfa málið um að lækka veiðigjaldið þar til hann kæmi til landsins. Þar segir, með leyfi forseta:

„Við þingmenn Pírata þurfum að vita hvort og þá hvenær við þurfum að nota þau verkfæri sem kjósendur okkar treystu okkur fyrir til að auka beint lýðræði, eins og málþófi, þar til þú kemur aftur til landsins til að beita því valdi sem þjóðin treysti þér fyrir, málskotsrétti forsetaembættisins, öryggisventli þjóðarinnar. Okkur þætti vænt um að vita hve lengi við þingmenn Pírata þurfum að þæfa málið þar til þú kemst til landsins til að taka við málskotsréttinum úr höndum stjórnarliða.“

Forsetaritari hefur staðfest við okkur í dag að forsetinn er kominn til landsins. Meginmarkmiði málþófs pírata er því náð.

Við höfum rætt um það hvort við ættum að koma með víðtækari kröfur og halda málþófinu áfram en okkur þykir það ekki góð regla og viljum frekar fylgja fordæmi ungs indversks lögfræðings í Suður-Afríku sem fór af stað með borgaralega óhlýðni sem varðar fjöldahreyfingu. Þegar hreyfingin var komin í þá stöðu að ná fram kröfum sínum þótti lögfræðingnum Mohandas Gandhi ekki rétt að bæta við þær kröfur.

Við píratar höfum í framhaldinu óskað eftir fundi með forsetanum til að ræða framgöngu beins lýðræðis á Íslandi og hvernig við getum best unnið að vegferð þess og brautargengi en eins og staðan er núna er forsetinn kominn til landsins, málskotsrétturinn er í höndum forseta. Málþófi pírata er lokið.