142. löggjafarþing — 19. fundur,  2. júlí 2013.

veiðigjöld.

15. mál
[21:07]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég minnist þess ekki að ég hafi notað orðin „að veitast að“, en við skulum bara lesa okkar ræður þegar þær verða komnar hér vélritaðar. Það talar svo fyrir sig sjálft.

Hv. þingmaður kvartar mjög undan fjölmiðlum. Það er mjög til siðs. Það er athyglisvert að þessi ríkisstjórn og aðstandendur hennar hafa ekki náð að lifa tvo mánuði og þeir eru grátandi yfir því hvað þeir fái ósanngjarna meðferð í fjölmiðlum. Þetta eru kannski loftárásir eins og það var orðað í blöðum á dögunum. Já, jæja já, er það svona bara, er þolið, úthaldið, ekki meira en þetta?

Ef maður horfir til baka síðustu fjögur árin, bæði hvað varðar fjölmiðla og orðbragð stjórnarandstöðu, ætli það sé nú mikið sem ríkisstjórnin hafi þurft að þola? Ég held að hv. þingmaður þurfi líka aðeins, ef ég má bara leyfa mér að segja það sem mína meiningu, að minna sjálfan sig á það, klípa sjálfan sig í handlegginn og muna eftir því, að hann er orðinn formaður í þingnefnd, talar fyrir meiri hlutanum, en notar hér tækifærið við það sem var ætlað að yrðu lok þessarar umræðu til að rífa málflutninginn í allar áttir með að mínu mati fullkomlega ómaklegri einkunnagjöf, til dæmis um málflutning annarra þingmanna. Hv. þingmaður viðhafði orðin þekkingarleysi og rangfærslur um málflutning þingmanna í þessari umræðu. Það sneri ekki að fjölmiðlum. Ég skrifaði þetta niður um leið og þingmaðurinn sagði það, ónafngreint að vísu. Það var sem sagt einkunnagjöf sem einhver okkar sem hafa tekið þátt í þessari umræðu fengu frá hv. þm. Jóni Gunnarssyni, að annars vegar einkenndist málflutningur okkar af þekkingarleysi og hins vegar væri þar mikið um rangfærslur.

Ég gengst við hvorugu svo að það sé bara sagt hér, gengst við hvorugu, en er auðvitað alltaf tilbúinn í uppbyggilegar og málefnalegar umræður við hv. þingmann ef það er í boði af hans hálfu.