142. löggjafarþing — 19. fundur,  2. júlí 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[23:39]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa langt mál í þessari ræðu við 3. umr. um þetta frumvarp. Þó hlýt ég að koma hingað upp — eftir þau tækifæri sem gefist hafa við 1., 2. og 3. umr. þessa frumvarps, um breytta tilhögun við það hvernig valið er í stjórn Ríkisútvarpsins — í 3. umr. og lýsa undrun minni yfir því að ekkert hafi heyrst frá hv. þingmönnum Framsóknarflokksins sem þó eru nokkrir í þessum sal. Þeir hafa enn ekki kosið að tjá sig í málinu, hafa enn ekki skýrt mál sitt. Auðvitað er ekki við hina nýju þingmenn þess ágæta flokks að sakast. En hæstv. utanríkisráðherra Gunnar Bragi Sveinsson, hæstv. félagsmálaráðherra Eygló Harðardóttir, sem sat í allsherjar- og menntamálanefnd síðasta þings, og hv. þm. Ásmund Einar Daðason — þau sátu hér öll á síðasta þingi ásamt fleiri þingmönnum Framsóknarflokksins og greiddu atkvæði með frumvarpinu sem varð að lögum fyrir fjórum mánuðum.

Ég hlýt að undrast það að þessir hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar komi ekki hingað upp og útskýri sinnaskiptin. Hv. þingmenn sem þá voru, sem héldu ræður þegar við ræddum heildarlögin um Ríkisútvarpið, ræddu nauðsyn þess að endurskoða fyrirkomulagið. Talsmönnum Framsóknarflokksins varð tíðrætt um það í málinu, það man ég vel því að ég sat hér allar umræður um frumvarpið og hlustaði vel og fylgdist með. Það var markmið mitt og það var markmið þeirra sem stýrðu þá hv. allsherjar- og menntamálanefnd að reyna að ná sátt um málið.

Það var þess vegna sem miklar breytingar voru gerðar við vinnslu á málinu. Bæði þegar það var lagt hér fyrst fram, ekki á síðasta þingi heldur þarsíðasta, og svo aftur á því síðasta. Þær breytingar miðuðust meðal annars við að koma til móts við sjónarmið hv. þingmanna Framsóknarflokksins sem höfðu mikinn áhuga á því, svo að ég vitni til þeirra umræðna sem urðu á þinginu, að styrkja sjálfstæði Ríkisútvarpsins. Ég hlustaði á fyrrverandi þingmenn Siv Friðleifsdóttur og Eygló Harðardóttur, sem nú er hæstv. ráðherra, ræða nauðsyn þess að tryggja sjálfstæði Ríkisútvarpsins, meðal annars með því að tryggja hinn sjálfstæða tekjustofn, útvarpsgjaldið, sem samþykkt var í frumvarpinu, og líka með því að endurskoða allt þetta fyrirkomulag og færa Ríkisútvarpið fjær hinu pólitíska valdi.

Nú kann að vera að hv. þingmenn Framsóknarflokksins, sem hér sátu á síðasta þingi, hafi skipt algjörlega um skoðun og það kann að vera að þeir hv. þingmenn Framsóknarflokksins sem eru nýir á þingi hafi tekið afstöðu og séu ósammála þeirri afstöðu sem þingmenn flokksins tóku á síðasta þingi. En mér er það með öllu óskiljanlegt að sá flokkur sem veitir ríkisstjórninni forstöðu, sá flokkur sem leiðir ríkisstjórnina, sá flokkur sem vann hvað stærstan kosningasigur í síðustu kosningum — að enginn fulltrúi þess flokks hafi komið upp í umræðum um grundvallarbreytingar á því hvernig valið er í stjórn Ríkisútvarpsins. Ekki er tekið tillit til þess að þegar síðustu lög voru samþykkt fyrir fjórum mánuðum var um heildarendurskoðun að ræða og hlutverki stjórnar var breytt. Eins og ítrekað hefur komið fram í umræðum miðaðist hlutverk stjórnar í gömlu löggjöfinni um RÚV við meiri háttar rekstrarlegar ákvarðanir eins og það var orðað þá.

Þetta hlutverk var endurskoðað enda þótti það óskýrt og hlutverk stjórnar og ábyrgð þótti óskýr og því var farið í að endurskilgreina hlutverk stjórnar. Þannig að nú má segja að stjórn Ríkisútvarpsins fari með ábyrgð sem er líkari því sem tíðkast í opinberum hlutafélögum, fari bara með eðlilega ábyrgð stjórnar. Sú ábyrgð á ekki eingöngu við um meiri háttar rekstrarlegar ákvarðanir heldur til að mynda mótun dagskrárstefnu og annað. Hluti af því að útvíkka starfssvið stjórnar var að breyta skipan hennar. Hér hefur umræðan því miður farið út í þær ógöngur að menn hafa verið að benda á pólitískar tengingar, fólk sem kemur inn í valnefnd, eins og gerðist áðan, í gegnum heildarsamtök listamanna, sem mér finnst ósmekklegt.

Mér finnst það mjög ósmekkleg tenging þegar búið er að útskýra það margoft í umræðunni að hugsunin á bak við þessa breytingu var að stjórn Ríkisútvarpsins væri skipuð á breiðari grunni, að þar hefði Alþingi mjög mikilvægu hlutverki að gegna, þar hefði hæstv. menntamálaráðherra hlutverki að gegna, þar hefðu starfsmenn hlutverki að gegna og sótt væri til þeirra sem hvað best þekkja annars vegar menningarumhverfið á Íslandi og hins vegar til þeirra sem best eru bærir til að meta lýðræðishlutverkið, sem við getum kallað svo. Því að menningarhlutverkið og lýðræðishlutverk Ríkisútvarpsins eru þau tvö hlutverk sem skýrast eru afmörkuð í lögunum um Ríkisútvarpið. Þess vegna er fráleitt þegar hv. þingmenn á borð við hv. þm. Brynjar Níelsson, sem hér talaði á undan, spyr af hverju ekki bara þessi samtök eða hin þegar margoft er búið að rökstyðja það hér í ræðum, ekki bara við þessa umræðu heldur líka þegar heildarlögin voru samþykkt, af hverju nákvæmlega þessir aðilar urðu fyrir valinu til að koma að valnefnd, ekki stjórn heldur valnefnd, sem átti að velja saman fimm einstaklinga sem færðu þar fram ólíkt hæfi, ólíka eiginleika, til að mynda sem besta stjórn fyrir almannaþjónustumiðilinn sem við viljum væntanlega að fái sem mestan veg.

Þetta er sú umræða sem við höfum átt hér. Þingmenn minnar hreyfingar hafa talað nokkuð, þingmenn Samfylkingar hafa talað nokkuð, þingmenn Sjálfstæðisflokks hafa talað nokkuð, í þessu máli og það er ekkert skrýtið, skoðanir eru ólíkar. En ég spyr: Af hverju heyrum við ekkert frá þingmönnum Framsóknarflokksins og af hverju fáum við ekki skýringar á þessari breyttu afstöðu? Á almenningur í landinu ekki rétt á því að vita af hverju hæstv. ráðherrar hafa skipt um skoðun og hv. þingmenn? Af hverju hinir nýju þingmenn Framsóknarflokksins hafa ekki sömu skoðun og þingflokkur Framsóknarflokksins hafði á síðasta kjörtímabili? Ætlar Framsóknarflokkurinn ekkert að útskýra afstöðu sína í þessu máli sem kemur líklega til afgreiðslu á morgun?

Mér finnst það ábyrgðarhluti hjá virðulegum forseta þingsins að þetta mál gangi hér fram og að ítrekað hafi verið kallað eftir afstöðu annars stjórnarflokksins í málinu, útskýringum — ja, nema hv. þingmenn Framsóknarflokksins ætli ekki að styðja málið, ég kann ekki að útskýra það — á þessari breyttu afstöðu. Mér finnst það mjög merkilegt að enginn hv. þingmaður Framsóknarflokksins hafi treyst sér til að koma hingað upp og útskýra afstöðubreytinguna. Ég velti því fyrir mér hvort það sé af því að hún sé á veikum grunni byggð því að hægt er að draga af þessu nokkrar ályktanir. Það er auðvitað hægt að draga þá ályktun, af því að við höfum ekkert heyrt frá flokknum, að hann styðji ekki málið en þó skrifar hann undir nefndarálit sem virðist benda til þess að hann styðji það.

Ég velti því fyrir mér hvað veldur. Eru hv. þingmenn Framsóknarflokksins kannski ekkert sérstaklega ánægðir með málið en ætla að láta sig hafa það að styðja mál samstarfsflokksins eftir að hafa lagt í það margra mánaða vinnu á síðasta þingi að liggja yfir lögunum um Ríkisútvarpið þannig að hlutverk þess væri sem best skilgreint, þannig að hlutverk stjórnar væri sem best skilgreint og þannig að lýðræðis- og menningarhlutverkið væri sem best skilgreint. Hv. þingmenn Framsóknarflokksins tóku fullan þátt í þeirri vinnu. Þeir byggðu afstöðu sína á ígrunduðu máli og gerðu ígrundaða grein fyrir henni og mér er það óskiljanlegt af hverju við fáum ekki að heyra ástæðuna fyrir þessari afstöðubreytingu, hvort það er hreinlega vegna þess að hv. þingmenn Framsóknarflokksins treysta sér ekki til að útskýra að þeir séu bara að fylgja samstarfsflokknum að máli eða hvort einhverjar aðrar ástæður eru fyrir stefnubreytingunni sem þeir vilja ekki koma hér upp og gera grein fyrir.

Mér þykir það sérstaklega sérkennilegt í tilviki hæstv. ráðherra og hv. þingmanna sem hér sátu — af því að nú horfi ég á tvo nýja þingmenn Framsóknarflokksins sem kannski eru ekki alveg inni í þeirri umræðu sem þar átti sér stað — í tilviki hv. þingmanna sem tóku þátt í umræðu um málið fyrir örfáum mánuðum. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu meira en mér finnst það ábyrgðarhluti hjá hæstv. forseta að ítrekað hafi verið kallað eftir afstöðu hv. þingmanna eins flokks, við 1., 2. og 3. umr., og aldrei komið svör.

Virðulegi forseti. Mér finnst það ábyrgðarhluti.