144. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2014.

störf þingsins.

[15:11]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Á árunum 2010–2013 í ríkisstjórnartíð Jóhönnu Sigurðardóttur var hagnaður sjávarútvegsins meira en 0,5 millj. kr. á hvert mannsbarn í landinu. Hagnaðurinn fyrir hverja fjögurra manna fjölskyldu á fjögurra ára tímabili var yfir 2 millj. kr. Þetta sýnir svo ekki verður um villst að sjávarútvegurinn er í góðum færum til þess að standa undir þeim veiðigjöldum sem hann átti að standa undir og það var algerlega tilefnislaust fyrir núverandi ríkisstjórn að lækka þau gjöld á sjávarútveginn. Þá peninga hefðum við sannarlega getað notað til þess að draga úr þeim hækkunum sem stjórnarmeirihlutinn boðar nú á matvöru og aðrar nauðsynjar fyrir heimilin í landinu, til að byggja Landspítalann og til þess að koma í veg fyrir fjöldatakmarkanir í framhaldsskólum, svo aðeins örfá þörf dæmi séu nefnd.

Öll opinber gjöld sjávarútvegsins á þessu fjögurra ára tímabili námu 1 krónu fyrir hverjar 3 krónur sem sjávarútvegurinn hafði í hreinan gróða. 1 króna til hins opinbera á móti hverjum 3 krónum í hreinan gróða.

Til hvers leiðir linkind stjórnarmeirihlutans í því að láta sjávarútveginn greiða eðlileg auðlindagjöld? Jú, það leiðir til þess að útgerðin nærri tvöfaldar arðgreiðslur út úr greininni á síðasta ári. Arðgreiðslur út úr sjávarútveginum rjúka úr ríflega 6 milljörðum í yfir 11 þúsund milljónir á síðasta ári. Peningar teknir út úr grunnatvinnuvegi þjóðarinnar vegna þess að ríkisstjórnin hefur slakað svo mikið á í gjaldtökunni af greininni að þeir moka peningunum út úr henni. Á meðan þarf velferðarþjónustan í landinu að líða fyrir það. Núna heimilin í landinu í hækkunum á mat og öðrum nauðsynjum.

Virðulegur forseti. Færum veiðileyfagjöldin aftur í það horf sem þau voru. Það er sjálfsagður hlutur útgerðarinnar (Forseti hringir.) í sameiginlegum verkefnum okkar.