144. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2014.

störf þingsins.

[15:24]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Það er með hreinum ólíkindum að heyra hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur ræða um hvað stjórnvöld vilji gera varðandi veiðigjöld. Í fyrrasumar hækkaði þessi ríkisstjórn veiðigjöld á stærstu útgerðum í landinu um 38%, (Gripið fram í: Eftir að hafa …) gegn háværum mótmælum minni hlutans. (Gripið fram í.) Gegn háværum mótmælum. (Gripið fram í.) — Hef ég orðið, herra forseti?

(Forseti (EKG): Hv. þingmaður hefur orðið.)

Á sama tíma voru veiðigjöld lækkuð á litlum og meðalstórum útgerðum í kringum landið. Ef eitthvað er þá virðast þessar aðgerðir ekki hafa dugað til vegna þess að þó nokkur samþjöppun hefur orðið í greininni síðan þetta var gert. Þess vegna er það að bíta höfuðið af skömminni að þeir sem voru á móti því að hækka 38% á stærstu útgerðirnar í landinu í fyrra komi hér eins og björt mey og hrein og segi að núverandi stjórnvöld séu ekki að gera neitt til að vernda litlar og meðalstórar útgerðir.

Við framsóknarmenn vorum í ánægjulegri heimsókn á Patreksfirði og Tálknafirði nú um helgina. Við fengum að vita það að ef þetta hefði ekki verið gert, þ.e. að lækka álögur á litlar og meðalstórar fjölskyldureknar útgerðir, væru þær úr sögunni. Það væri líka tilraunarinnar virði fyrir hv. þingmann að taka eitt bryggjuspjall á Súgandafirði þar sem trillukarlarnir eru nákvæmlega á sömu skoðun. Ef veiðigjöldum hefði ekki verið hagað í fyrra eins og var gert þá væru þeir úr sögunni núna.

Við skulum gæta að því að í fyrra voru 10 stærstu sjávarútvegsfyrirtæki á Íslandi að borga 75% veiðigjaldsins. Að sjálfsögðu. Þau höfðu góða útkomu.

En síðan er út í hött að koma hér og tala um 22 milljarða hagnað Samherja sem kemur að þremur fjórðu hlutum frá útlöndum. Hefur það eitthvað með íslenska fiskveiðistjórn að gera, (Forseti hringir.) hv. þingmaður?