145. löggjafarþing — 19. fundur,  13. okt. 2015.

dýravelferð.

[14:49]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu og tek undir að það er mjög mikilvægt að allir tali skýrt þeim rómi að við sættum okkur ekki við illa meðferð á dýrum. Það er mjög mikilvægt. Það eru allir bændur á Íslandi, það eru engar verksmiðjur á Íslandi. Svínabændur og alifuglabændur fá ekki neinn stuðning frá ríkinu svo það komi fram.

Varðandi spurninguna um lausagöngu mjólkurkúa er ákvæðið í nýju reglugerðinni frá 2014 þannig að allir nautgripir, að undanskildum graðnautum, skuli komast á beit á grónu landi í átta vikur hið minnsta á tímabilinu 15. maí til 15. október ár hvert. Tímabilið er því ekki runnið út. Mér hefur skilist á Matvælastofnun að enginn hafi verið kærður fyrir að brjóta þessa reglu í ár. Að sjálfsögðu verður þó fylgst með málum áfram.

Það er rétt sem komið hefur fram í umræðunni að tækifæri íslensks landbúnaðar byggist á því að aðbúnaður og ímynd hans sé góð og það eru gríðarlega mikilvæg skilaboð til landbúnaðarins sem ég veit að landbúnaðurinn kann vel að meta. Það er líka rétt að það skiptir okkur máli að sá innflutningur sem við stöndum fyrir hingað til lands sé framleiddur við sambærilegar kröfur og við setjum okkur hér. Hvernig við getum tryggt það getur hins vegar orðið höfuðverkur í alþjóðaviðskiptum eins og við þekkjum en þangað þurfum við að sækja.

Það er rétt að aðbúnaður dýra er almennt svo góður á Íslandi, líka í hvítakjötsframleiðslunni, að fúkkalyfjanotkun á Íslandi er með því lægsta sem gerist í heiminum. Aðeins Norðmenn nálgast okkur eða eru með svipað magn. Í öðrum löndum er umtalsvert meira notað af fúkkalyfjum. Þetta er góður mælikvarði á það hvort aðbúnaður dýranna sé góður eða slæmur.

Allflestir, ef ekki allir, bændur reyna að gera sitt besta og enginn sættir sig við að fara illa með dýr. Þegar það gerist höfum við eftirlitskerfi, ný lög og nýjar reglugerðir sem við förum eftir. (Forseti hringir.) Mér hefur sýnst Matvælastofnun hafa gert það.

Eins og ég sagði í inngangsorðum mínum en enginn þingmaður virðist hafa tekið eftir er þeim þvingunaraðgerðum sem voru í gangi varðandi það svínabú sem var í gangi hér lokið (Forseti hringir.) með þeim árangri að nú eru þær gyltur ekki bundnar á bása heldur eru í lausagöngu. Kerfið er sannarlega að virka.