146. löggjafarþing — 19. fundur,  26. jan. 2017.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

68. mál
[12:19]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Okkur hv. þm. Steingrím J. Sigfússon greinir á um það. Ég tel að best sé að byrja á þessum stað en ekki í atvinnuvegaráðuneytinu með þeim rökum sem ég nefndi hér áðan. Ég vil líka hrekja það sem fram kom í málflutningi hv. þingmanns, að þetta væru einhverjar aðgerðir til að bæta við ráðherra. Eins og ljóst er þá er hægt að gera það án þess að breyta þessu fyrirkomulagi. Ég hef heyrt það úr mínum ranni í þó nokkurn tíma að ástæða væri til þess að brjóta upp innanríkisráðuneytið. Ég hef líka heyrt það frá fyrrverandi ráðherrum sem gegnt hafa þessu embætti að þeim finnist það mjög viðamikið og full ástæða sé til þess að skoða það að skipta því upp. Þannig að ég held að hér sé alls ekki verið að ana að neinu. Hvort undirbúningurinn gæti verið einhvern veginn öðruvísi, það má vel vera og ég held að við þurfum bara að fara yfir það hér. En ég er enn þá sannfærð um að þetta sé staðurinn til að byrja og eðlilegt að brjóta sundur þessi stóru og mikilvægu málefni.