149. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2018.

innflutningur á fersku kjöti.

[15:34]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Mig langar að eiga orðastað við hæstv. landbúnaðarráðherra um innflutning á fersku kjöti. Í síðustu viku féll dómur eins og var gert hér að umræðuefni fyrr í þessum fyrirspurnatíma. Það var ekki óvæntur dómur. Hann var eiginlega mjög fyrirsjáanlegur og staðfesti í einu og öllu bæði dóm héraðsdóms og síðan dóm EFTA-dómstólsins. Það er því búið að liggja nokkuð ljóst fyrir, finnst mér, að innflutningsbannið á fersku kjöti var ólöglegt.

Spurningin er þessi: Hver eru viðbrögðin?

Mig langar fyrst að spyrja hæstv. ráðherra út í ummæli sem hafa verið látin falla, ekki af ráðherra sjálfum heldur fyrrverandi utanríkisráðherra og fyrrverandi landbúnaðarráðherra, hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni, þar sem hann í viðtali við Vísi tjáir sig á þá leið að það komi mjög til álita að endurskoða EES-samninginn takist ekki að viðhalda þessu innflutningsbanni á fersku kjöti. Ég held að það sé afar brýnt að ráðherra tali mjög skýrt í þessum efnum. Ég veit að hann hefur tjáð sig um málin við fjölmiðla. Ég tel að það sé mjög brýnt að hann tjái sig um akkúrat þennan þátt málsins, hvort hann líti þannig á að það komi til álita eða sérstakrar skoðunar að óska eftir endurskoðun EES-samningsins eða hverfa frá honum með einhverjum (Forseti hringir.) hætti í tilefni af þessu máli.