149. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2018.

heilsuefling eldra fólks.

[15:41]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Þjóðin er að eldast og í því felast margar áskoranir fyrir okkur sem samfélag. Lengri lífaldur kallar á aukna áherslu á lífsgæði þeirra sem eldri eru og þar er heilsan veigamesti þátturinn. Það er ljóst að virk heilsuefling eldra fólks, sem byggð er á samræmdum aðferðum, bætir bæði líkamlega og andlega heilsu, dregur úr innlögnum á heilbrigðisstofnanir og þar með álagi á heilbrigðiskerfið. Sjúkraþjálfarar veita þjónustu sem miðar að því að bæta, viðhalda og endurhæfa hreyfigetu og virkni fólks. Þeir aðstoða fólk á öllum lífsskeiðum þegar sótt er að hreyfigetu og virkni vegna öldrunar, slysa, sjúkdóma, kvilla, ástands eða umhverfislegra þátta.

Hæstv. forseti. Vestræn samfélög hafa lagt aukna áherslu á að efla meðferð í formi þjálfunar undir kjörorðinu: Þjálfun er læknisfræðileg meðferð. Heilsueflingarverkefni eldra fólks efla einnig samveru og virkni hópsins og draga úr einangrun þar sem regluleg hreyfing og skipulagðar æfingar veita fólki fastan punkt í tilverunni. Umræða um elsta hóp samfélagsins og þjónustu við hann hefur oft og tíðum hverfst um hjúkrunarheimili, heimaþjónustu og aðkomu lækna en ekki mikið um líkamsrækt og útiveru og önnur skemmtilegheit.

Bæjarfélög hafa í samstarfi við embætti landlæknis unnið með góðum árangri að verkefnum sem snúa að lýðheilsu og má þar helst nefna heilsueflandi samfélag sem flestir þekkja. Til viðbótar hafa Reykjanesbær og Hafnarfjörður gert samning um fjölþætta heilsurækt eldra fólks undir stjórn Janusar Guðlaugssonar og komast þar færri að en vilja.

Óþarfi er að fjölyrða um ávinning samfélagsins af slíkum forvörnum. Því liggur beinast við að spyrja hæstv. ráðherra hvort uppi séu fyrirætlanir um að festa þessa nálgun í sessi. Þar sem mikil samlegðaráhrif eru milli félagsþjónustu sveitarfélaga og sjúkrastofnunar langar mig einnig að spyrja hæstv. ráðherra: Eru uppi áform um að hefja samstarf sveitarfélaga og ríkis um heilsueflingu eldra fólks?