149. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2018.

áfengisauglýsingar.

116. mál
[17:12]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Herra forseti. Birtar hafa verið tvær skýrslur, önnur er frá árinu 2010 og var skilað til þáverandi fjármálaráðherra, Steingríms J. Sigfússonar, og er um heildarstefnu í áfengismálum, og hin er skýrsla sem nýlega var skilað til menntamálaráðherra og er um áfengisauglýsingar. Það er alveg skýrt í báðum skýrslunum að því er beint til stjórnvalda að endurskoða löggjöfina sem tengist áfengisauglýsingum vegna þess að núverandi fyrirkomulag endurspeglar ekki raunveruleikann, nútímann, fjölmiðlana, samtímamiðlana, allt það sem við stöndum frammi fyrir, og síðan er dregin fram reynsla annarra þjóða.

Í skýrslunni frá árinu 2010 er lagt mjög eindregið til við þáverandi ráðherra að heimila áfengisauglýsingar með verulegum takmörkunum, eins og t.d. Frakkar hafa gert og ég kem inn á síðar.

Fjölmiðlanefnd segir það sama og leggur til að birtingar á slíkum auglýsingum verði heimilaðar innan þess ramma sem alþjóðaskuldbindingar Íslands segja til um. Hún bendir einnig á að þetta bann þjóni vart tilgangi sínum lengur þar sem áfengisauglýsingar birtist Íslendingum í erlendum miðlum, hvort sem er í gegnum erlenda hljóð- og myndmiðla, erlenda vefi, samfélagsmiðla eða erlend blöð og tímarit. Það þekkja allir að standa úti í Eymundsson við hliðina á íslenska Glamour og erlenda Glamour og í því erlenda eru leyfðar áfengisauglýsingar en ekki í því íslenska. Við verðum að fara að horfast í augu við hvernig þetta er.

Munum við auka áfengis- og vímuefnanotkun með slíkum auglýsingum? Ég hef ekki trú á því ef við pössum upp á forvarnir og setjum skýrar reglur.

Í Svíþjóð má auglýsa áfengi með allt að 15% styrkleika ef nánari reglur um innihald og framsetningu auglýsinganna segja til um það. Í Finnlandi eru leyfðar auglýsingar á áfengi með styrkleika upp að 22% með nánari takmörkunum. Í Danmörku eru áfengisauglýsingar heimilaðar en þær eru líka háðar mjög ströngum takmörkunum um efni og framsetningu.

Frakkar voru einna fyrstir til að setja lög sem heimila áfengisauglýsingar árið 1991. Síðan er komin nokkuð mikil reynsla á lögin. Þar má ekki beina auglýsingum að ungu fólki og ekki má auglýsa í sjónvarpi og kvikmyndahúsum. Frakkar hafa reynt að meta áhrif af reglunum og rannsóknir sýna að neysla fólks breyttist ekki við setningu laganna. Hins vegar ímynd breyttist áfengis því að í áfengisauglýsingum eru vörumerki auglýst og ýtt undir samkeppni innan iðnaðarins frekar en að hvatt sé til aukinnar neyslu.

Við vitum að innlendir framleiðendur eru í mjög erfiðri stöðu varðandi það að auglýsa vöru sína. Þeir kvarta iðulega undan því að þeir hafi fáar sem engar leiðir (Forseti hringir.) til að benda á þá frábæru vöru sem íslenska varan er, hvort sem hún er bjór eða annað. (Forseti hringir.) Framleiðendur eru takmörkunum háðir.

Þess vegna vil ég (Forseti hringir.) spyrja hæstv. ráðherra: Er hún reiðubúin til að beita sér fyrir því að gerð verði breyting á löggjöf á því sviði þannig að við nálgumst nútímann aðeins meira en nú er?