150. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2019.

störf þingsins.

[15:33]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Herra forseti. Tveir atburðir á alþjóðavettvangi síðustu vikuna hafa vakið óhug hér á landi og víðar. Annars vegar er um að ræða innrás Tyrkja í norðurhluta Sýrlands sem hefur raskað verulega öryggi almennra borgara á svæði sem er sundurtætt af margra ára stríðsátökum með tilheyrandi mannfalli og fólksflutningum. Þó að ríkisstjórn Íslands hafi brugðist vel við með fordæmingu á innrásinni hvet ég ríkisstjórnina til að nýta öll þau tækifæri sem við höfum til að beita okkur með afgerandi hætti fyrir friðsamlegum lausnum og gegn árásum á Kúrda sem hafa verið öflugir bandamenn í baráttunni gegn viðbjóðslegum hryðjuverkum á svæðinu og gegn áframhaldandi stríðsátökum sem munu alltaf bitna hvað harðast á börnum, konum og almennum borgurum. Við höfum dýrmætt sæti í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna sem hægt er að nýta til að kalla saman aðildarríki á sérstakan aukafund um stöðuna í Sýrlandi og við erum líka með fríverslunarsamning við Tyrkland þar sem kveðið er á um virðingu fyrir mannréttindum og lýðræði. Í þessu máli hvet ég líka þingmenn Alþingis til að fordæma innrás Tyrkja og taka einarða afstöðu gegn henni hvar sem hægt er.

Hinn atburðurinn er þungir fangelsisdómar Hæstaréttar Spánar sem voru kveðnir upp í fyrradag yfir leiðtogum sjálfstæðishreyfingar Katalóníu vegna aðgerða katalónska sjálfsstjórnarþingsins í tengslum við atkvæðagreiðslu um sjálfstæði Katalóníu árið 2017 og sjálfstæðisyfirlýsinguna sem fylgdi í kjölfarið. Dómarnir eru ekkert nema hörmulegir í evrópsku lýðræðisríki, hljóða upp á 9–13 ára fangelsisvist og meðal þeirra sem fá dóm er þingforseti sjálfsstjórnarþings Katalóníu sem fékk dóm fyrir það eitt að leyfa umræður í þingsal um sjálfstæði héraðsins. Að auki er þarna um að ræða tvo fulltrúa almannasamtaka sem hafa starfað og barist fyrir sjálfstæði Katalóníu sem eru líka dæmdir í fangelsi.

Kæru þingmenn. Ég hvet ykkur til að láta ykkur málið varða, tjá ykkur þar sem þið getið og halda því til haga að burt séð frá því hvað Katalónar vilja gera í sinni eigin sjálfstæðisbaráttu er óboðlegt að fangelsa lýðræðislega kjörna fulltrúa fyrir friðsamlega baráttu fyrir pólitískum skoðunum sínum. Það er hreinlega skylda okkar sem þingmanna að standa með kjörnum fulltrúum í lýðræðislegum stofnunum sem eru (Forseti hringir.) fangelsaðir fyrir skoðanir sínar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)