151. löggjafarþing — 19. fundur,  13. nóv. 2020.

staða skólamála á tímum Covid-19, munnleg skýrsla mennta- og menningarmálaráðherra. - Ein umræða.

[11:12]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir að koma hér og gefa okkur skýrslu um ástand menntamála á þessum tímum. Að mínu áliti eru skólastjórnendur og starfsfólk allt að vinna stórvirki á hverjum degi við erfiðar aðstæður. Þar sem ég þekki best til hefur upplýsingagjöf til aðstandenda og forsjármanna verið með miklum ágætum. Ég held að aðstandendur barna í skóla núna séu vel upplýstir um það hvernig ástandið er hverju sinni, á hverjum degi og hvað verið er að gera. Áhyggjuefni mitt er það að við erum náttúrlega langt frá því að hafa séð fyrir endann á þessu ástandi. Eftir því sem það dregst á langinn verða afleiðingarnar okkur öllum kunnari á hverjum degi, t.d. félagsleg einangrun framhaldsskólanema sem eru meira og minna í fjarkennslu. Svo hef ég miklar áhyggjur af því hvernig prófum verður háttað í vor.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort það verði kannski tekið mildilegar á prófárangri nú í vor þannig að ekki myndist tómarúm og brottfall aukist ekki. Mig langar líka til að spyrja hæstv. ráðherra hvort búið sé að tryggja aukna sálgæslu og aðstoð við þá sem þessi faraldur hefur hitt illa fyrir. Ég held að það sé grundvallaratriði að við reynum að koma öllum nemendum sem klakklausast í gegnum þetta ástand þannig að við sitjum ekki uppi með fólk í tómarúmi og aukið brottfall úr námi.