151. löggjafarþing — 19. fundur,  13. nóv. 2020.

staða skólamála á tímum Covid-19, munnleg skýrsla mennta- og menningarmálaráðherra. - Ein umræða.

[11:30]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Annað mál: Nú hefur fólk í framlínu víða fengið eingreiðslu eða álagsgreiðslur vegna Covid. Það er alveg ljóst í mínum huga að kennarar og annað starfsfólk skóla er svo sannarlega í framlínunni og hefur þetta fólk unnið margvísleg afrek með því að halda skólastarfi gangandi við mjög erfiðar aðstæður. Námsáætlun hefur verið breytt, áfangar og verkefni endurhönnuð, nýjar samskiptaleiðir teknar upp og námsmati umbylt. Allt þetta og miklu fleira hefur þetta fólk lagt á sig. Nú veit ég að Kennarasamband Íslands hefur sent ráðherra sérstakt bréf þess efnis og því spyr ég: Mun ráðherra beita sér fyrir því að starfsfólk skóla sem hefur ekki fengið álagsgreiðslur fái álagsgreiðslur vegna Covid eins og aðrir í framlínunni? Ég tek fram að sveitarfélögin eru alls ekki í stakk búin að taka slíkan kostnað á sig þegar kemur að grunnskólum og leikskólum. Því er boltinn (Forseti hringir.) einnig hjá ríkisvaldinu hvað það varðar. Hvað ætlar hæstv. menntamálaráðherra að gera í þessum efnum? Nú veit ég að kennarar og annað starfsfólk er að hlusta á þetta svar ráðherrans.