Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 19. fundur,  18. okt. 2022.

réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

273. mál
[19:03]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ef ég held aðeins áfram varðandi þessa pælingu áðan, að við séum oft með góðan hug og viljum taka skynsamlegar ákvarðanir og búa til skynsamlegan ramma sem verður síðan kannski örlítið flókinn og gerir kannski ekki mest gagn, þá langar mig t.d. að nefna að það þarf að vera opinbert hverjir sækja um opinberar stöður. Það er augljóst hvers vegna það þarf auðvitað að vera fyrir opnum dyrum hverjir sækja um þessar stöður, en á móti kemur að þá er t.d. fullt af fólki á einkamarkaðnum sem veigrar sér við að sækja um því það getur mögulega haft miklu meiri afleiðingar fyrir það fólk heldur en fólk hjá hinu opinbera sem fær kannski miklu meiri stuðning til þess.

Annað er að krafan um hlutleysi og hæfi veldur því mögulega að Georg Bjarnfreðarson fái allar stöður því það er búið að taka út úr kerfinu að treysta bara á einhvern X-faktor eða eitthvað slíkt. Aftur, þá er alveg fullkomlega skiljanlegt hvers vegna þessar reglur eru settar en þær valda því kannski að við erum fullmikið búin að strauja út ákveðna þætti sem var ekki stefnt að í upphafi.

Ástæðan fyrir þessum inngangi er að ég ætla að vera algjörlega heiðarleg með að ég fæ örlítið í magann við að lesa hvernig það er orðað í greinargerð frumvarpsins að það sé brýnt að ráðuneytisstjórar séu bæði í ásýnd og reynd óháðir stjórnmálamönnum, stjórnmálaflokkum og flokkspólitískum hagsmunum. Eftir að hafa starfað í íslenskum stjórnmálum á einn hátt eða annan í áratug þá sýnist sitt hverjum um hverjir séu augljóslega einhvers konar hagsmunaaðilar flokka eða skoðana og öðrum finnst eitthvað allt annað. Mín spurning er einfaldlega, og ítreka að mér finnst örlítið óþægilegt þegar eitthvað er í ásýnd ekki á einhvern ákveðinn hátt: Hvernig hafa flutningsmenn frumvarpsins hugsað sér að þetta myndi líta út í framkvæmd?