133. löggjafarþing — 19. fundur,  2. nóv. 2006.

útvarpslög, prentréttur og samkeppnislög.

58. mál
[15:45]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg ljóst að íslenskt dagskrárefni hefur aukist. En hlutfallið hefur ekki hækkað þrátt fyrir frjálsu stöðvarnar. Frjálsu stöðvarnar hafa hins vegar að mínu mati, og það er mín skoðun, sinnt þessu hlutverki sínu ágætlega.

En nákvæmlega þau atriði sem hv. þingmaður kom inn á áðan varðandi efni frá öðrum málsvæðum en enskumælandi löndum, efni frá norrænu löndunum gegnum m.a. norrænt samstarf, meiri upplýsingar fá Norðurlöndunum, á þeim er einmitt tekið í samningsdrögunum við Ríkisútvarpið. Við erum að leggja meiri kvaðir og meiri skyldur, ríkari skyldur á herðar Ríkisútvarpinu gegnum þau samningsdrög sem liggja fyrir. Við erum einmitt að tala um þau atriði sem hv. þingmaður talar um. Við erum að auka framleiðslu hjá sjálfstæðum framleiðendum verulega miðað við það sem nú er. Við segjum: Forgangsraðið út frá því. Forgangsraðið og kaupið inn efni frá öðrum málsvæðum en enskumælandi löndum. Kaupið meira, mig minnir að talað sé um 5%, alla vega 5% efni frá Norðurlöndunum þannig að við höldum hinu norræna yfirbragði okkar og því ágæta samstarfi sem við eigum við Norðurlöndin.

Á þessu er tekið og mörgum öðrum málum sem ég tel, í gegnum það frumvarp sem er núna til meðferðar hjá hv. menntamálanefnd, einmitt koma til móts við það sem hv. þingmaður hefur verið að segja, þ.e. að tryggja skýrt og skarpt hlutverk Ríkisútvarpsins en þó ekki þannig að það fari út um allt. Það skiptir miklu máli.

Við höfum nú þegar tekið hátt í 20 klukkutíma að ræða hvort rekstrarformið sé hv. þingmanni þóknanlegt eða ekki, og ljóst er að það form hugnast ekki hv. þingmanni. Ég tel hins vegar það vera tækifæri fyrir Ríkisútvarpið til að sinna þessum menningarlegu skyldum sem við ætlumst til að það sinni.