133. löggjafarþing — 19. fundur,  2. nóv. 2006.

almenn hegningarlög og skaðabótalög.

21. mál
[17:01]
Hlusta

Eiríkur Jónsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka þær áhugaverðu umræður sem farið hafa fram. Ég legg áherslu á að æruverndin er mjög mikilvæg og ég get tekið undir allt það sem sagt hefur verið um að það verði að vernda æru borgaranna. Á hinn bóginn verður að gera það á réttan hátt og eins og ég hef ítarlega rakið tel ég refsingu alls ekki leiðina til þess.

Af því að hér er því haldið fram að þetta leiði af stjórnarskránni, þá langar mig aðeins til að nefna að í fyrsta lagi stendur náttúrlega hvergi í stjórnarskránni að refsa eigi fyrir ærumeiðingar. Í öðru lagi stendur hvergi í stjórnarskránni að taka eigi upp sektarbætur vegna ærumeiðinga. Það á aðeins að vernda æruna og eins og ég hef lagt til er betra að gera það á sviði einkaréttar.

Mig langar að nefna þau lönd sem nýverið hafa horfið frá refsingum við ærumeiðingum. Það eru lönd eins og Albanía, Argentína, Bosnía-Hersegóvína, El Salvador, Gana, Georgía, Hondúras, Ítalía, Kambódía, Króatía, Kýpur, Mið-Afríkulýðveldið, Moldavía, Perú, Rúmenía, Sri Lanka, Tógó, Úganda og Úkraína. Þetta eru allt saman lönd sem hafa nýlega horfið frá refsingum vegna ærumeiðinga, annaðhvort að hluta eða að öllu leyti.

Hér í þessu vestræna lýðræðisríki er hins vegar lagt til að þetta eigi að skrúfa upp og auðvitað er ekki hægt að neita því að verið er að skrúfa þetta upp með þessu frumvarpi. Og af því að menn eru að tala um að ég geri mikið úr fangelsinu þá er það nú vegna þess að þar stendur berum orðum, með leyfi forseta:

„Hver, sem meiðir æru annars manns með móðgun … skal sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári.“

Það er því ekki að ástæðulausu sem ég tala um þetta.

Varðandi fullyrðingu um Morgunblaðið er hún að vissu leyti skondin og ég tek undir það sem hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagði, að Morgunblaðið kveður auðvitað ekki upp dóma í þessum málum. Ég skildi nú ekki alveg þá fullyrðingu að enginn hefði orðið fyrir skerðingu í Bretlandi vegna hækkaðra bóta. Ég nefndi það í ræðu minni áðan að Bretar hafa ítrekað fengið áfellisdóma hjá Mannréttindadómstóli Evrópu, nú síðast árið 2005, þannig að eitthvað hafa þeir í Strassborg verið á annarri skoðun en Morgunblaðið ef þetta er rétt eftir haft.

Að öðru leyti fagna ég því að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson hafi sagt að aðrar lagatæknilegar aðferðir komi til greina því að eins og ég hef tekið fram fellst ég fyllilega á að mikilvægt er að vernda æruna. Ég tel mun eðlilegra og í samræmi við nútímakröfur á alþjóðasviðinu að hafa þetta á sviði einkaréttarins. Ég fagna því að hann taki undir það og er ánægður með að hafa ekki móðgað hann því þá lendi ég a.m.k. ekki í fangelsi.