135. löggjafarþing — 19. fundur,  6. nóv. 2007.

tekjutap hafnarsjóða.

39. mál
[14:06]
Hlusta

Flm. (Bjarni Harðarson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Nú er það vissulega svo að hv. þm. Jón Bjarnason hefur verið mér lengur í stjórnmálum og þykir því kannski nokkuð djarft að ég taki að mér að kenna honum vinnubrögðin. En ég tel samt að í málum sem þessum muni vænlegra til árangurs að mæla fyrir ákveðnum tillögum sem miða að ákveðnum upphæðum og ákveðnum aðgerðum en segja einfaldlega: Það þarf meiri pening til hafnanna. Það er ekki mjög vænlegt til árangurs eða líklegt til að skila okkur fram á veginn.

Það má vel vera að þar með sé ekki nóg að gert. Ég hef aftur á móti ekki bundist loforði um að flytja með hv. þm. Jóni Bjarnasyni ný hafnalög. Ég tel einfaldlega ekki stað né stund til þess í dag að taka afstöðu til þeirra lagabreytinga sem gerðar voru um hafnir á síðasta kjörtímabili. Ég tók aðeins fram að þau lög þyrftu ekki að vera endanleg um alla framtíð og yrðu að skoðast í ljósi reynslunnar. Það er hins vegar mikið atriði og ég vona að hv. þm. Jón Bjarnason átti sig á því að auðvitað þarf að gæta aðhalds og sparsemi við hafnarrekstur. Samkeppnissjónarmið í hafnarrekstrinum stuðla að nokkru leyti að því, en það getur vel verið að þau henti ekki alls staðar í landinu.