136. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2008.

frumvarp um eftirlaun.

[13:58]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að það liggja fyrir yfirlýsingar að ég hygg frá öllum stjórnmálaflokkum um mjög ótvíræðan vilja til þess að breyta þessum lögum. Það hefur líka komið fram að það hafa verið í gangi ákveðnar viðræður á milli forustumanna flokkanna um samstöðu til þess að ná þessu fram. Ég tel að það sé mjög mikilvægt, með tilliti til þess hvernig til þessara laga var stofnað, að samstaða náist um þetta mál.

Hv. þingmaður spurði síðan: Hvenær mun sú samstaða nást? Ég hugsa að það ráðist af afstöðu stjórnarandstöðunnar ekki síður en þeirra sem eru stjórnarmegin. Hv. þingmaður vísaði til þess að það væri 43 manna stjórnarmeirihluti hér á þingi. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni en þetta er hins vegar mál sem stjórnarmeirihlutinn hyggst ekki knýja fram í andstöðu við vilja stjórnarandstöðunnar. Nú tek ég það alveg skýrt fram að ég er ekki með þessu að ýja að því að stjórnarandstaðan sé eitthvað að stympast við í þessu máli. Þetta er hins vegar mál sem er mjög nauðsynlegt að vinna hratt og nauðsynlegt að ná sem breiðastri samstöðu um það.

Ef hv. þingmaður innir mig eftir afstöðu Samfylkingarinnar til þess hvenær eigi að ná því fram hefur það komið fram hjá formanni Samfylkingarinnar í nýlegu merku viðtali, sem ég veit að hv. þingmaður hefur legið yfir eins og fleiri, að hún væntir þess að það gerist fyrir jól. Það hefur komið fram af hálfu Ingibjargar Sólrúnar, hæstv. utanríkisráðherra, að hún vildi gjarnan sjá það gerast fyrir jól. Sama gildir um mig.