137. löggjafarþing — 19. fundur,  15. júní 2009.

áætlun um gjaldeyristekjur vegna Icesave.

[15:13]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Hér var fátt um svör. Hér eru greinilega engar áætlanir fyrirliggjandi um það hvernig menn ætla að standa undir þeim skuldbindingum sem ríkisstjórnin talar fyrir. Raunar er það svo, eins og ég var að reyna að benda á þegar samfylkingarfólk úti á kanti fór að flissa, að ef við skoðum dæmi um aðrar þjóðir sem farið hafa í gegnum það sama, berum tölurnar saman við það sem þriðja heims ríki eða austantjaldsríki lentu í varðandi skuldsetningu í erlendri mynt, er ekki hægt að sjá að Ísland standi undir því. Þá verður hugsanlega hægt að lengja í lánunum en þá halda vextirnir áfram að hrannast upp og að lokum verða náttúruauðlindir landsins undir. Ætlar einhver að trúa því að Steingrímur J. Sigfússon, hæstv. fjármálaráðherra, eða arftaki hans mundi þá þora að standa og verja þjóðina ef hann þorir því ekki núna? Það er því grundvallarkrafa að þingið a.m.k. fái að sjá þennan samning og við fáum að heyra að stjórnin hafi einhver raunhæf áform um það hvernig hún ætlar að standa undir þessu því að tölur annars staðar frá sýna að það er ekki hægt.