138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

aðild að fríverslunarbandalagi Norður-Ameríku og Mexíkó.

50. mál
[14:41]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir ágætlega skilmerkileg svör. Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að við flytjum nú um stundir mun meira til Evrópu en til Vesturheims. Engu að síður er þessi NAFTA-viðskiptablokk, ef við berum hana saman við Evrópusambandsblokkina, sú stærsta eða næststærsta í heimi ef við lítum út frá vergri landsframleiðslu, eftir því hvort við lítum á málin út frá viðskiptum eða verslun og þjónustu.

Það er því ýmislegt að sækja eins og kom fram í máli hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar ef við lítum bara í þá áttina. Það sem ég vildi ræða við ráðherrann og mér fannst kannski ekki koma nægilega skýrt fram í máli hans er hvað breyttist í stefnumörkun okkar Íslendinga frá því að gera viðskiptasamninga við flestar þjóðir í heiminum. Hvenær tókum við þessa markvissu ákvörðun? Var þjóðin upplýst um það að við ætluðum nú til að mynda að segja upp fríverslunarsamningum við Kanada sem er nýlega gerður og við Færeyinga sem er tvíhliða opinn samningur? Við munum að sjálfsögðu ekki hafa leyfi til að hafa slíka samninga ef við göngum inn í viðskiptablokkina Evrópusambandið, þá gerir Evrópusambandið slíka samninga fyrir okkar hönd en ekki við. Hvenær tók þjóðin þá markvissu upplýstu ákvörðun að hún væri hætt þeirri stefnu sem hún hefur tekið og farið eftir um áratugaskeið, allt frá því að hún varð lýðveldi, að reyna að ná viðskiptum við sem flestar þjóðir? Hvenær tók hún þá ákvörðun að fara inn í eina blokk og loka sig frá hinum og láta Evrópusambandsblokkina sjá um samninga, þar á meðal til að mynda við vini okkar Færeyinga og eins Kanada? Mér þykir sérkennilegt hve lítið hefur farið fyrir þessari frétt sem birtist á vef ráðuneytisins 30. apríl og eins samningnum sem ég held að hafi tekið gildi í júlí. Eru ekki möguleikar okkar gríðarlegir í þessu gríðarlega landi með mikil tengsl við Ísland og íslenska menningu, (Forseti hringir.) bæði í viðskiptum og þjónustu?