138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

gæsla hagsmuna Íslands í Norðurhöfum.

51. mál
[14:49]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég er eiginlega sammála öllu því sem hv. þingmaður segir um þau nýju tækifæri sem kunna að opnast okkur á næstu árum og mætti kannski kalla gagnvart okkur hinar jákvæðu afleiðingar loftslagsbreytinganna. Sömuleiðis eru þarna líka ákveðnar ógnir sem við þurfum að vera okkur meðvituð um. Hagsmunagæsla ráðuneytisins fer fram með margvíslegum hætti. Til dæmis hefur ráðuneytið forgöngu um að verja mál Íslendinga og sækja varðandi tilkall okkar til ýmissa svæða sem eru á landgrunninu. Það mál er í góðu horfi, kostar að vísu töluvert mikið af peningum, en ég tel að utanríkisráðuneytið núna og fyrr hafi haldið mjög fast á því.

Utanríkisráðuneytið hefur sömuleiðis í samráði við aðrar þjóðir, nágrannaþjóðir okkar, fylgst mjög mikið með þeirri öru þróun sem er á norðurslóðum þar sem við sjáum að ísinn er að bráðna miklu hraðar en áður var haldið að mundi gerast. Þetta getur haft í för með sér margvíslegar breytingar, t.d. getur þetta leitt til breytinga á för fiskstofna. Við sjáum að fiskstofnar geta jafnvel horfið. Ein af afleiðingum þessara breytinga er sú að einn af mikilvægustu stofnum okkar, loðnan, virðist hafa haldið út fyrir efnahagslögsöguna. Við höfum að sjálfsögðu í krafti þeirra samninga sem gerðir hafa verið freistað þess og munum gera það að halda áfram veiðum okkar ef í ljós kemur að hún eða aðrir nytjastofnar flytji sig varanlega um set. Á móti kemur að svipuð tækifæri verða til, þ.e. nýjar tegundir, hlýlægari, koma inn í efnahagslögsöguna eins og makríllinn, og ríkisstjórnin freistar þess auðvitað að ná varanlegum samningum um veiðar úr þeim stofni og með þeim hætti að hægt sé að veiða hann hugsanlega innan efnahagslögsögu annarra ríkja þegar hann er á miklu verðmætara og vinnanlegra formi.

Það er líka alveg hárrétt sem hv. þingmaður segir, tækifæri sem tengjast siglingum verða mjög mikil. Það er alveg ljóst að mikil svæði sem nú eru þakin ís verða íslaus innan skamms og þá munu þau virka sem segull á þjóðir og stórfyrirtæki sem munu halda þangað til að reyna að vinna olíu af hafsbotni og hugsanlega líka málma. Þetta hefur í för með sér mikil tækifæri fyrir Ísland, t.d. á því svæði sem hv. þingmaður talaði um, við Austur-Grænland og jafnvel enn norðar, þar er ljóst að verða mikil olíu- og gasvinnslusvæði. Hv. þingmaður sagði að á þessu svæði ásamt Drekasvæðinu væri að finna fjórðung þeirra olíubirgða sem enn eru ónýttar. Sum þessara svæða verður ekki hægt að þjónusta nema frá Íslandi þannig að ég tel þarna mikil tækifæri fyrir byggðir á Norðurlandi, Norðausturlandi og Vestfjörðum.

Við höfum reynt að sækja hagsmuni Íslendinga með því að kynna þessa möguleika, bæði með því að gera það fyrir ýmsum þjóðum sem hafa sérstakan áhuga á því og líka fyrir ýmsum stórfyrirtækjum sem í tímans rás munu hugsanlega freista þess þegar siglingaleiðin opnast úr Kyrrahafinu um Norður-Íshafið og yfir í Norður-Atlantshafið að koma hér upp umskipunarhöfnum. Við höfum t.d. rætt við stærsta fyrirtæki á því sviði í heimi, Dubai Ports. Við höfum í gegnum Útflutningsráð, sem er hluti af utanríkisráðuneytinu, sent sendinefndir til þess að kynna þetta mál með þeim árangri að á þessu ári og síðasta hafa komið sendinefndir hingað beinlínis til að kynna sér þetta. Sú þjóð sem á öldum fyrr er talið að hafi jafnvel siglt alla leið til Íslands, þ.e. Kínverjar, er t.d. með ákveðnar hugmyndir um samstarf við Íslendinga á þessu sviði. Sá ráðherra sem fer með þessi mál kom hingað eigi alls fyrir löngu til að ræða við okkur um þetta.

Hins vegar verðum við líka að horfast í augu við það að innan tíðar mun þetta leiða til þess að mikill fjöldi gríðarlega stórra olíuflutningaskipa og gríðarlegra gámaflutningaskipa mun sigla í grennd við Ísland. Þetta hefur í för með sér ákveðna hættu, bæði vegna mannskaða, skipsskaða og mengunarslysa. Við þurfum að verjast þessu. Það höfum við gert með því að reyna að koma upp og erum að vinna að því, og höfum reyndar undirritað ákveðna samninga, tvíhliða samkomulag við Noreg, Danmörku og Bretland á sviði öryggis- og varnarmála, svokallað grannríkjasamstarf.

Ég vísa síðan líka til Stoltenbergsskýrslunnar sem ég hafði framsögu fyrir á Norðurlandaráðsþingi í síðustu viku þar sem drög eru lögð að mikilvægu samstarfi með norðurslóðir í huga til næstu 15–20 ára. Þar er talað um stórbrotnar hugmyndir um samnorræna hafgæslu og sömuleiðis er talað um samnorrænt vöktunarkerfi. Þetta eru miklar hugmyndir. Engin þessara þjóða getur ein staðið undir þessu en við eigum öll hagsmuna að gæta. Þetta er hluti af þeirri hagsmunagæslu sem (Forseti hringir.) utanríkisráðuneytið og ríkisstjórnin hefur staðið fyrir auðvitað með þátttöku þingsins því að ég gleymi ekki Vestnorræna ráðinu sem hefur ítrekað vakið athygli á þessum málaflokki.