138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

gæsla hagsmuna Íslands í Norðurhöfum.

51. mál
[14:55]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu efni. Ég ætlaði að gera hið sama og hæstv. utanríkisráðherra sem benti á skýrslu Thorvalds Stoltenbergs sem utanríkisráðherra kynnti á Norðurlandaráðsþingi. Ég held að þar sé margt mjög jákvætt og við ættum að taka þessa skýrslu hér til ítarlegrar skoðunar og umfjöllunar því að í henni bendir hann einfaldlega á þá miklu möguleika sem norrænu ríkin eiga í samstarfi sín á milli á norðurslóðum. Hann bendir einnig á, sem ég held að þurfi að skoða mjög gaumgæfilega, þá möguleika sem eru á norðurslóðum og þá miklu ásókn stærri efnahagsvelda í þær auðlindir sem þar liggja. Þar eigum við að horfa til aukins samstarfs við þau ríki sem vilja standa utan slíkra bandalaga og við eigum að taka það úr þessari skýrslu Thorvalds Stoltenbergs sem jákvætt er (Forseti hringir.) og leita að auknu samstarfi við Færeyinga, Norðmenn og fleiri ríki.