141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

framkvæmdir Landsvirkjunar í Þingeyjarsýslum.

[13:54]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það var ekki mikið að græða á þessu svari hæstv. ráðherra, Steingríms J. Sigfússonar. Það er eins og hann eigi erfitt með að gefa þinginu skýr svör. Það er hægt að vitna til þess sem komið hefur fram hjá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur um þegjandi samkomulag. Hún er eiginlega æpandi að verða, þessi þögn, og ég spyr ráðherra aftur: Er hann fylgjandi því að Landsvirkjun haldi áfram á þessum nótum? Forstjóri Landsvirkjunar segir í frétt að það sé mikilvægt fyrir fyrirtæki að það komi skýr skilaboð frá stjórnvöldum en að skilaboð stjórnvalda hafi verið mjög misvísandi síðustu daga. Það er nauðsynlegt að ráðherra atvinnumála höggvi hér á hnútinn og segi að Landsvirkjun sé í fullum rétti og með stuðning atvinnuvegaráðherra landsins (Forseti hringir.) til að halda þessum framkvæmdum áfram en fari ekki eftir tilmælum hæstv. umhverfisráðherra Svandísar Svavarsdóttur og hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur um að stöðva þessar framkvæmdir og setja á nýtt umhverfismat (Forseti hringir.) sem við vitum öll að kæmi í veg fyrir að þessar framkvæmdir færu af stað á næstu tveimur árum (Forseti hringir.) eða eitthvað slíkt.

(Forseti (ÁRJ): Enn minnir forseti á tímamörkin og biður þingmenn um að virða þau.)