141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

Byggðastofnun.

162. mál
[15:18]
Horfa

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þarf ekki að lengja þessa umræðu mjög mikið en ég tel nauðsynlegt að koma hingað til þess að skerpa aðeins á nokkrum atriðum. Það er alveg rétt að þetta virðist ekki vera efnismikil breyting samkvæmt frumvarpinu. Eins og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson rakti þá er málið dýpra.

Hver er stjórnsýsluleg staða Byggðastofnunar? Er þetta sjálfstæð stofnun eða sérstök stofnun? Hver er þá hin pólitíska ábyrgð sem ráðherra ber samkvæmt því? Þegar þessar breytingar eru gerðar, sem eru í rauninni mjög praktískar og nauðsynlegar ef maður horfir til annarra stofnana sem hafa svipað hlutverk eins og Nýsköpunarsjóður, Tækniþróunarsjóður og fleiri stofnanir sem vitnað er til í greinargerðinni, þá virðast þær vera mjög eðlilegar. Hitt er annað mál, að það fylgir þeim að staðan breytist sem og hin pólitíska staða.

Í þessu sambandi væri kannski áhugavert að heyra ráðherrann fjalla aðeins um hver raunveruleg stefnumörkun í málefnum Byggðastofnunar á vettvangi ríkisstjórnarinnar er. Hvert á hlutverk hennar að vera til framtíðar? Við vitum að nú er verið að vinna að alls konar breytingum innan ráðuneytanna varðandi stefnumál í samstarfi við landshlutasamtök eins og stefnumörkun sem kölluð hefur verið 20/20 og fleiri mál sem þar eru í gangi, en Byggðastofnun virðist ekki vera mikið inni í þeim málum að öðru leyti en því að sinna mikið því sem snýr að IPA-styrkjunum. Þess vegna hefði maður áhuga á að heyra ráðherra fjalla aðeins um það hvort Byggðastofnun á í framtíðinni að hafa eitthvert raunverulegt hlutverk varðandi það hvernig menn ætla að þróa byggðamál almennt.

Út af þeirri umræðu sem skapaðist hér vegna lánastarfsemi Byggðastofnunar tek ég fullkomlega undir orð hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar. Sú lánastarfsemi sem Byggðastofnun hefur stundað hefur oft og tíðum skipt sköpum fyrir byggðir þar sem atvinnustarfsemi hefur stundum verið á veikum grunni og hinar almennu lánastofnanir í landinu hafa ekki séð sér fært að koma inn með lánsfé á grunni þess að byggðirnar eru veikar og slík rök tínd til. Ég tek undir að stundum er eins og einhvers konar fordómar plagi hina almennu stóru banka gagnvart landsbyggðinni og minni byggðum. Nú eins og oft áður byggjast fordómar á vanþekkingu og fáfræði, í þessu tilfelli á atvinnulífi sem stundað er í minni byggðum og á landsbyggðinni.

Ég tek undir það með hv. þm. Helga Hjörvar, og fagna því í rauninni að hann hefur þá skoðun að rétt sé að styrkja veikari svæði til að þar megi atvinnulíf þrífast. En ég er algjörlega ósammála honum um að það eigi að gera eingöngu í formi styrkja því að í flestum tilfellum er um viðskiptaleg tækifæri að ræða þar sem Byggðastofnun hefur komið inn og sinnt því hlutverki. Ég held að það segi nokkra sögu að afskriftir hjá Byggðastofnun hafa þó ekki verið meiri en raun ber vitni nú þegar við höfum gengið í gegnum bankahrun og bankastarfsemi Byggðastofnunar hefur ekki farið verr út úr því en raun ber vitni.

Ég hef áhuga á að heyra frá ráðherra fyrst að þetta mál er til umfjöllunar. Hvernig sér hann starf Byggðastofnunar þróast til framtíðar?