141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

neytendalán.

220. mál
[16:08]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um neytendalán á þskj. 228, þetta er 220. mál. Frumvarpið var lagt fram á síðasta þingi en ekki náðist að afgreiða það sökum áðurnefndrar tímapressu í störfum þingsins við lok þess. Það er því lagt hér fram öðru sinni með nokkrum breytingum sem fyrst og fremst má rekja til athugasemda sem komu fram við þinglega meðferð málsins og gerð er grein fyrir í greinargerð frumvarpsins.

Frumvarpið var unnið af nefnd sem efnahags- og viðskiptaráðherra skipaði í maí 2011 og þar er lögð til innleiðing á tilskipun 2008/48/EB um lánssamninga við neytendur. Tilgangur tilskipunarinnar er að endurskoða reglur um neytendalán til að auka neytendavernd og tryggja samræmt lagaumhverfi við veitingu neytendalána auk þess að stuðla að aukinni neytendavitund um lánskjör og gera neytendum hægara um vik að bera saman ólíka lánssamninga.

Í nefndinni áttu sæti fulltrúar helstu hagsmunaaðila auk ráðuneytisins.

Meginefni frumvarpsins má draga saman eða gera tilraun til að draga saman á eftirfarandi hátt.

Frumvarpið fylgir gildissviði tilskipunar 2008/48/EB að langmestu leyti. Þó er það fyrirkomulag valið sem er ekki nýtt að hluta til, að fasteignalán og lán að fjárhæð undir 200 evrum og yfir 75 þús. evrum eru ekki undanskilin frá gildissviði frumvarpsins líkt og tilskipunin heimilar að gert sé. Aðildarríkjum er frjálst að fella fleiri tegundir lánssamninga undir gildissvið laga við innleiðingu og er í frumvarpi þessu lagt til að það verði gert og er það sama skipan mála og við völdum á sínum tíma varðandi fasteignalán eða fasteignaveðlán.

Frá og með árinu 2000 var lögum nr. 121/1994 breytt með lögum nr. 179/2000 og hafa einmitt fasteignalán fallið undir lög um neytendalán síðan. Á sama tíma var tekin út undanþága vegna lánssamninga að hærri fjárhæð en 1.500 þús. kr. Þessar breytingar held ég að menn telji almennt hafa gefið góða raun og því er lagt til að við höfum þetta fyrirkomulag áfram, þ.e. að fasteignalán falli innan gildissviðs frumvarps um neytendalán og ekkert hámark verði á fjárhæðum.

Svonefnd smálánafyrirtæki hófu starfsemi sína hér á landi í upphafi árs 2010 og fellur veiting slíkra lána utan núgildandi laga um neytendalán, nr. 121/1994. Lagt er til að undanþágur frá gildissviði laga um neytendalán verði nú þrengdar og ákvæði frumvarpsins gildi um öll neytendalán óháð fjárhæð, þar með talin smálán.

Sum nágrannaríki okkar hafa fundið sig knúin til að bregðast við uppgangi smálánafyrirtækja með aukinni reglusetningu til verndar neytendum. Í því samhengi er vert að nefna að um það bil helmingur af 27 aðildarríkjum Evrópusambandsins hafa nú í löggjöf sinni ákvæði um hámarksvexti.

Finnar lögðu nú á haustþingi fram frumvarp sem kveður á um hámarksvexti á smálánum og Danir hafa tilkynnt að þeir ætli sér slíkt hið sama. Í Norður-Ameríku er sama sagan. Í Kanada hefur verið sett 60% hámark á svonefnda árlega hlutfallstölu kostnaðar og í um 35 af fylkjum Bandaríkjanna hafa verið settar reglur um smálánastarfsemi sem taka til ýmissa skilyrða svo sem vaxta og gjalda.

Í frumvarpi þessu er lagt til að sett verði hámark á árlega hlutfallstölu kostnaðar vegna neytendalána sem nemur 50 hundraðshlutum að viðbættum stýrivöxtum Seðlabanka Íslands eins og þeir eru þegar lánssamningur er gerður. Rétt er að vekja athygli á því að þessi tillaga er ný og hana var því ekki að finna í frumvarpinu eins og það var lagt fram á síðasta þingi. Þá lögðu menn í raun og veru til að látið væri á það reyna hvort hægt væri að koma viðunandi skikk á þessa starfsemi með því að fella hana sem slíka undir lög um neytendalán og láta þær varnir sem neytendum eru þar tryggðar duga. Hér er sem sagt gengið lengra og í raun ívið lengra en flestar þjóðir í kringum okkur hafa gert. Hér er valin lægsta árleg hlutfallstala kostnaðar sem við höfum fundið í samanburði okkar og skoðun á þessu fyrirkomulagi hjá öðrum ríkjum.

Kröfur um upplýsingaskyldu lánveitanda eru nokkuð ítarlegri í frumvarpinu en áður hafa þekkst hér á landi. Gerð er krafa um ítarlegar upplýsingar í auglýsingum þar sem fjallað er um vexti eða önnur kjör vegna lánssamnings. Gerðar eru kröfur um vissar upplýsingar sem ber að veita fyrir samningsgerð og ákvæði um upplýsingar við samningsgerð eru ítarlegri en samkvæmt núgildandi lögum.

Tilskipunin kveður á um að vissar upplýsingar skuli ávallt veittar á stöðluðu eyðublaði sem fylgir með sem viðauki við tilskipunina, en eyðublaðið á að auðvelda neytendum að bera saman lánstilboð. Í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að þeirri línu verði fylgt og ráðherra birti eyðublað í íslenskri þýðingu í reglugerð.

Þegar borin er saman árleg hlutfallstala kostnaðar á óverðtryggðu láni og verðtryggðu er ljóst að samanburðurinn hlýtur alltaf að verða verðtryggða láninu í hag ef gert er ráð fyrir stöðugu verðlagi út lánstímann. Til að bregðast við þessu er lagt til að bætt sé við lögin ákvæði þess efnis að lánveitendur skuli áður en lánssamningur um veðlán er gerður veita upplýsingar um sögulega þróun verðlags og vaxta og áhrif þeirra þátta á breytingar á höfuðstól og greiðslubyrði sé um verðtryggt lán að ræða og um breytingar á greiðslubyrði sé um óverðtryggt lán að ræða. Tilgangur ákvæðisins er að upplýsa neytendur um hvernig höfuðstóll og greiðslubyrði verðtryggðra lána getur þróast við tilteknar aðstæður en ljóst er að slíkar upplýsingar geta ekki haft bindandi áhrif og verða aðeins til viðmiðunar, þ.e. eru aðeins til upplýsingar og ætlaðar til þess að auðvelda mönnum að glöggva sig á mati á ólíkum kostum.

Lagt er til að Neytendastofu verði falið að birta opinberlega á heimasíðu sinni upplýsingar og dæmi sem allir geta þá haft aðgang að og skoðað. Þetta er meðal annars gert til þess að tryggja samræmda upplýsingagjöf á milli lánveitenda. Þessi tillaga er, eins og ákvæði um hámarksvexti, ný af nálinni og var ekki að finna í frumvarpinu þegar það var lagt fram á síðasta þingi.

Tilskipunin gerir kröfu um að lánshæfi lántaka sé metið áður en gengið er frá lánssamningi en aðildarríkjum er veitt ráðrúm til þess að ákveða sjálf með hvaða hætti matið fer fram. Lagt er til að framkvæmt verði hefðbundið greiðslumat vegna lánveitinga yfir ákveðinni fjárhæð en vegna lægri fjárhæða verði svonefnt lánshæfismat látið nægja. Lagðar eru ákveðnar línur um framkvæmd bæði greiðslu- og lánshæfismats í frumvarpinu en gert er ráð fyrir að ráðherra hafi heimild til að setja ákvæði í reglugerð sem kveða nánar og ítarlegar á um gerð slíkra mata.

Í frumvarpinu er fjallað um skyldur lánamiðlara sem eru aðilar sem veita milligöngu um lán eða ráðgjöf um lántöku. Slíkt ákvæði er ekki að finna í núgildandi lögum um neytendalán. Þær kröfur snúa meðal annars að upplýsingagjöf til neytenda um hvert umboð lánamiðlarans sé, einkum hvort hann starfi fyrir einn eða fleiri lánveitendur eða sem óháður miðlari. Jafnframt skal hann tilkynna neytanda um þóknun sem hann þiggur fyrir vinnu sína ef einhver er og skjalfesta samning við neytanda um þjónustu sína áður en gengið er frá lánssamningi.

Í frumvarpinu er fjallað um svokallaða tengda lánssamninga sem eru lánssamningar sem gerðir eru í þeim eina tilgangi að fjármagna kaup á tiltekinni vöru eða þjónustu. Í frumvarpinu er kveðið á um rétt neytanda til að falla frá tengdum lánssamningi ef hann nýtir rétt sinn til að falla frá viðkomandi samningi um kaup á vöru eða þjónustu.

Frumvarpið kveður jafnframt á um að í þeim tilvikum sem neytandi hefur ekki fengið fulla afhendingu samkvæmt dómi um afhendingu vöru eða þjónustu og hann hefur leitað úrræða til að fá úr því bætt gagnvart seljanda án árangurs þá skuli hann hafa rétt til að leita vissra úrræða gagnvart lánveitanda. Neytanda er í slíkum tilvikum heimilt að beita þeim úrræðum gegn lánveitanda sem hann gæti almennt beitt gegn seljanda, svo sem úrræði samkvæmt lögum um neytendakaup og almenn réttarfarsúrræði. Hann getur þó ekki krafist úrbóta eða nýrrar afhendingar í skilningi laga um neytendakaup og laga um þjónustukaup enda væri slíkt óþarflega íþyngjandi kvöð gagnvart lánveitanda.

Vert er að taka fram að möguleikar neytanda til fullnustu gagnvart kröfuhafa takmarkast við fjárhæð lána á þeim tíma sem krafa um úrbætur er gerð. Hugsunin er því sú að neytandinn þurfi ekki að halda áfram að greiða að fullu fyrir vöru eða þjónustu sem hann fékk ekki afhenta í samræmi við samning þó að ekki sé hægt að leita fullra efnda frá seljanda.

Virðulegi forseti. Þetta voru nokkur helstu efnisatriði frumvarpsins. Ég legg svo til að að lokinni þessari umræðu verði því vísað áfram til hv. efnahags- og viðskiptanefndar.