142. löggjafarþing — 19. fundur,  2. júlí 2013.

störf þingsins.

[13:32]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Greint hefur verið frá því í fjölmiðlum að forustumenn ríkisstjórnarflokkanna hafi óskað eftir því við stjórnarandstöðuna að leggja fyrir þingið tillögu um breytingu á þingsköpum Alþingis að því er varðar samkomudag Alþingis og að heimild verði veitt til að fresta þingsetningu að hausti til 1. október á kosningaári.

Ég vil af því tilefni greina frá því að í vinnu þingskapanefndar á síðasta kjörtímabili, sem ég veitti forustu, varð talsverð umræða um þetta málefni, þ.e. þingsetningu, og einkum og sér í lagi það ákvæði þingskapanna, sem er nýmæli, að samhliða fjárlagafrumvarpi að hausti skuli einnig leggja fram frumvarp um tekjuöflun ríkisins sem tengist fjárlagafrumvarpi. Ég tel mikilvægt að þessi frumvörp komi fram samtímis til að þingið geti fjallað um þau í samhengi. Um þetta var ágæt samstaða en ég verð þó að segja að gildistöku þessa ákvæðis, um að tekjuöflunarfrumvörpin kæmu fram samhliða fjárlagafrumvarpi, var frestað um eitt ár að beiðni fjármálaráðuneytisins því að það taldi sig þurfa lengri aðlögunartíma til að bregðast við nýjum starfsháttum. Þess vegna var ákveðið að gildistaka þessa ákvæðis yrði 1. september 2013.

Það kemur mér því spánskt fyrir sjónir að leggja það til núna að þingsetningunni sé frestað vegna þess að lengri aðlögunartíma þurfi. Kjarninn í þessari breytingu var meðal annars sá að gefa þinginu lengri tíma til að fjalla um fjárlagafrumvarpið en verið hefur vegna þess að fjárlagafrumvarpið hefur verið í undirbúningi í ráðuneytum um langt skeið og síðan hefur þingið aðeins haft tvo mánuði til að fjalla um það. Mér finnst þessi hugmynd ekki góð frá forustumönnum stjórnarinnar. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði erum ekki tilbúin til að ljá máls á þessu en vilji ríkisstjórnin leggja fram breytingu í þessa veru hvetjum við til þess að hún hlusti á þau sjónarmið sem við höfum haft uppi í þessu máli og komi til móts við þau en leggi ekki til þá breytingu sem heyrst hefur að stjórnarforustan hafi í hyggju.